154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

sólmyrkvi.

603. mál
[17:33]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum, málshefjanda og öðrum sem tóku þátt í umræðunni, fyrir samtalið. Hér er beint að mér fyrirspurnum um hvað eigi að gera með takmarkað aðgengi og þá held ég að það sé mjög skynsamlegt að Umhverfisstofnun og sömuleiðis samráðsnefndin um friðlandið fari yfir þetta, þeir þekkja þessi mál best og vita hvernig best er að standa að þessu. Það er mjög langt síðan ég hef komið á þennan stað og ég ætla ekki að tala hér sem einhver sérfræðingur, það eru aðrir mun betur færir til þess að gera það og staðarþekking er auðvitað grundvallaratriði.

Hér er mikil hvatning til mín að gera átak í samgöngumálum. Ég þakka bara traustið, hins vegar ætla ég að reyna að halda væntingum hóflegum. En það liggur alveg fyrir, grínlaust, að við erum komin í mikla innviðaskuld, ekki bara þarna heldur annars staðar. Það liggur alveg fyrir. Ég vonast til þess að við berum gæfu til þess að gera átak í því, ekki veitir af, ekki síst á Vestfjörðum. En það eru því miður fáir staðir ef nokkrir á landinu þar sem ekki er verk að vinna og ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er svo sem auðvelt að skamma innviðaráðherra en hann hefur alltaf úr ákveðnum fjármunum að moða og þarf að gera tillögur um forgangsröðun. Það er freistandi að ræða samgöngumálin en ég ætla að standast þá freistingu núna.