154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

umhverfisþing.

714. mál
[17:39]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg tilefni til að halda umhverfisþing en það er alveg vert að spyrja hvort mögulega eigi að breyta eitthvað forminu á þessu. Við höfum t.d. haft mál til umræðu í dag varðandi urðunarstaðina í Húnavatnssýslu þar sem breytt túlkun reglna sem komu frá hinu opinbera verður til þess að það er ekki hægt að koma ákveðnum úrgangi í farveg. Það þarf einhvern veginn líka að gera þessi umhverfisþing aðeins jarðbundnari þannig hægt sé að ræða þessi praktísku mál.

Síðan held ég að það sé líka ágætt að gera upp árangur þessara þinga, hverju þau eru að skila, og fara yfir þessa vinnu með gagnrýnum hætti. Ég held að það séu alla vega mörg mál sem eru algjörlega óleyst; fráveitumálin, það er förgunin á sóttmenguðum úrgangi fyrir bændur, sem hefur verið minnst á í umræðunni hér í dag hvað varðar riðumálin og annað. Það þarf að fá þessi praktísku mál líka í þingið.