154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

umhverfisþing.

714. mál
[17:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og sömuleiðis hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að koma hér og taka þátt í umræðunni. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson var með ýmsar hugmyndir um það hvernig væri mögulegt að breyta fyrirkomulagi þingsins og ég held að það sé sjálfsagt að ræða það. Ég hlakka til þingsins og ég vona að hv. þingmenn mæti þar.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég veit ekki í hvað hv. þingmaður er að vísa þegar hann talar um kyrrstöðu í þessum málaflokki. Því fer auðvitað víðs fjarri. Það má vel vera að málum sé ekki fyrir komið eins og hv. þingmaður vill. Það má vel vera. En það er bara stór munur á því og kyrrstöðu. Það liggur alveg fyrir að ég og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson erum ósammála í stjórnmálum. Raunar á ég mjög erfitt með að skilja hvernig hann getur skilgreint sig sem grænan í stjórnmálum því að alltaf þegar kemur að því að vinna t.d. að loftslagsmálum þá fer ekki saman hljóð og mynd hjá hv. þingmanni. Það er bara staðreynd og atkvæðagreiðslur hér í þinginu sýna það svo að ekki verður um villst. En sem betur fer höfum við rofið kyrrstöðu t.d. í grænum orkumálum sem hv. þingmaður myndi fagna ef hann væri einlægur í því að vilja berjast fyrir loftslagsmálum og grænum lausnum þar. En það fer ekki alveg saman hljóð og mynd þarna. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki pólitíkina sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson er að reka þegar kemur að þessu en eitthvað segir mér að það fari nú frekar í taugarnar á hv. þingmanni ef hlutirnir eru að hreyfast því að miðað við málflutning og atkvæðagreiðslur hjá hv. þingmanni þá vill hann hafa algjöra kyrrstöðu þegar kemur að loftslagsmálum.