154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

gervigreind.

645. mál
[17:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég kannast við Ísland 2,0. Það var í kjölfar þess að hér varð mikill efnahagssamdráttur sem ég minntist á að við ættum að rífa okkur upp með því að vaxa inn í framtíðina og skoða allt það sem við værum að gera og hvað við gætum gert til að sá fleiri fræjum í hagkerfið. Ég tel reyndar að við höfum gert mjög vel með aukinni áherslu á rannsóknir og þróun í landinu. Við sjáum gríðarlegan vöxt í hugverkageiranum. Við sjáum að ferðaþjónustan hefur tekið stakkaskiptum og er að vaxa inn í meiri verðmætasköpun heldur en áður átti við. Við sjáum sömuleiðis að í því sem hefur verið nefnt bláa hagkerfið eru að verða til spennandi tækifæri víða. Fyrsti einhyrningurinn á Íslandi, Kerecis, sprettur upp úr nýtingu á hráefni úr sjávarútvegsgeiranum. Kvikmyndagerð á Íslandi er mjög vaxandi o.s.frv. Því hefur stoðunum undir íslenskt efnahagslíf fjölgað gríðarlega. Ég er ekki einu sinni búinn að minnast á Alvotech sem er tiltölulega nýtt félag, skráir sig í Kauphöllina hér og er skyndilega stærsta félagið í íslensku Kauphöllinni. Þetta er í raun og veru allt saman Ísland 2,0, fyrir utan það að við erum í stafvæðingu opinberrar þjónustu.

Hér er komið sérstaklega inn á hagnýta gervigreind. Mig langar að byrja á að minnast á það að í mínu fyrra embætti fylgdist ég með því hvernig Skatturinn er byrjaður að nota gervigreind til að ná meiri árangri. Það er mjög athyglisvert, hefur sparað gríðarlega mikla vinnu og gert skatteftirlit mun skilvirkara. Málið er nefnilega að hið opinbera, alveg eins og atvinnulífið allt, hlýtur að vilja hagnýta nýjustu og bestu tækni til að auka framleiðni í öllu því sem við erum að gera, gera meira fyrir minna og bæta þjónustu við fólkið í landinu. Þarna sýnist mér að gervigreindin geti gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki.

Við höfum ekki enn gert neina formlega úttekt á tækifærum í utanríkisráðuneytinu í þessum málum en erum svo sem alltaf með tæknimál ráðuneytisins í skoðun og viljum leita leiða til að þróa getu okkar áfram. Í dag er það kannski helst í þýðingamiðstöðinni þar sem mér sýnist að gervigreind sé nýtt. Það tekur til skimunar á væntanlegum íðorðum úr lagatextum sem berast frá Evrópusambandinu en væntanlega væri hægt að nýta þetta á fleiri sviðum og ganga lengra á þessu sviði heldur en gert er í dag. Þar verð ég að treysta dálítið á mat okkar besta fólks í ráðuneytinu.

Þetta getur nýst okkur í alþjóðasamvinnunni. Umræða um áhrif gervigreindar á samfélag og lýðræði hefur stóraukist á alþjóðavettvangi eftir að fleiri og öflugri gervigreindarforrit komu til sögunnar. Sameiginleg stefnumótun á þessum sviðum hefur m.a. farið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hjá OECD og í Evrópuráðinu, þar sem umræður á þessu sviði fengu talsvert pláss undir formennsku Íslands. Ég er sammála hv. þingmanni að við verðum að spyrja okkur hvað þessi nýi veruleiki, þessi nýja tækni getur gert fyrir okkur og hvernig við getum tekið hana okkur til handargagns. Um leið þurfum við að gæta okkar á gildrum eða hættum sem gætu verið því samfara. Þá er maður t.d. að vísa til þess að ef gervigreind ætti t.d. að svara stjórnsýsluerindum þá þyrfti maður að vera viss um (BLG: Fyrirspurnum frá þingmönnum?) — já, fyrirspurnum frá þingmönnum, það gæti nú aldeilis gagnast hv. þingmanni að fá skjótari svör við öllum spurningum sínum — og ganga úr skugga um að, hvað á ég að segja, gagnasafnið sem verið væri að vinna svörin upp úr væri traust og fullnægjandi og að gervigreindin hefði alla þá eiginleika sem þyrfti að tryggja að væru til staðar þannig að stjórnkerfið gæti staðið undir því. Ég geri ráð fyrir að við myndum líka þurfa lagabreytingar til að treysta lagagrundvöll fyrir nýtingu þess. En þetta eru samt raunveruleg álitamál og myndu augljóslega, ef vel tækist til, geta gagnast mjög vel. (Forseti hringir.) Ef maður tekur þetta lengra þá getur maður svo sem líka sagt að það væri bara hægt að hafa slíkt spjallmenni á vefnum, spyrja það ýmissa spurninga á gervigreind.is og fá svarið án þess að leggja fram formlega fyrirspurn í þinginu.