154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

kynfæralimlesting kvenna.

595. mál
[17:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna eru ekki bara heilbrigðisvandamál heldur gróft brot á mannréttindum og skelfileg birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og kynbundnu ofbeldi. Eins og við vitum þá hafa íslensk stjórnvöld látið sig þetta málefni varða um árabil, bæði í gegnum almennt málsvarastarf á alþjóðlegum vettvangi en líka í stuðningi við verkefni sem snúa að þessum málum.

Frá 2011 hafa íslensk stjórnvöld til að mynda stutt við samstarfsverkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem miðar að upprætingu kynfæralimlestinga kvenna og stúlkna fyrir árið 2030. Það hefur víða náðst árangur en það felur í sér samstarf í mörgum ríkjum en Síerra Leóne er því miður ekki meðal þeirra ríkja og það þrátt fyrir að kynfæralimlestingar séu afar útbreiddar þar. En ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst tregða stjórnvalda í Síerra Leóne til þátttöku hingað til. Það hefur ekki komið í veg fyrir að íslensk stjórnvöld hafa komið afstöðu sinni til þessara mála á framfæri í tvíhliða samtölum við stjórnvöld í Síerra Leóne og áréttað rétt stúlkna og kvenna til að lifa án ofbeldis og mismununar. Starfsfólk sendiráðs Íslands í Síerra Leóne hefur sömuleiðis átt í samtali við landsskrifstofu Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna um það hvernig íslensk stjórnvöld geta frekar lagt sitt af mörkum til baráttunnar gegn kynfæralimlestingum stúlkna og kvenna í landinu. En eins og við vitum þá gegnir þessi skrifstofa mjög leiðandi hlutverki á þessu sviði.

Ég vil líka nefna hér að íslensk stjórnvöld eiga einnig í samstarfi við UNFPA í Síerra Leóne sem snýr að fæðingarfistli og bættri mæðraheilsu en fæðingarfistill er oft afleiðing kynfæralimlestinga. Þetta er raunverulegt vandamál hjá stórum hópi kvenna í Síerra Leóne. Ég vil sömuleiðis nefna að í því sambandi er unnið að undirbúningi sérstaks samstarfsverkefnis sem snýr að þessari baráttu. Þetta er þó vinna sem er á byrjunarstigi og hér verður reynt að nálgast málið með heildrænum hætti. Það þarf að horfa til rannsókna. Gagnasöfnun þarf að eiga sér stað. Þetta er sömuleiðis vinna sem kallar á stuðning við grasrótarstarf og valdeflingu stúlkna. Það er nokkuð sem við teljum að sé óaðskiljanlegur hluti átaks í þessum málum. En stjórnvöld á staðnum verða sömuleiðis að koma að málum og það þarf að virkja þau til frumkvæðisvinnu sem gæti t.d. falið í sér að fá samfélagsleiðtoga á vagninn, halda fólki upplýstu og tengja síðan við aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem margar vinna mikilvægt málsvarastarf um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna gagnvart stjórnvöldum og almenningi. En því miður þá virðist þetta vera þáttur sem með einhverjum hætti hefur greypt sig í menningu landsins og það er ástæða þess að það hefur verið erfitt að fá stjórnvöld með í átak í þessum málum.

Ég verð aðeins í blálokin að nefna að það er mikil áskorun að halda úti sendiráði í Síerra Leóne. Grundvallarþættir til að halda starfsemi gangandi, eins og bara að vera öruggur með rafmagn og vatn — síðast heyrði ég að það væru tveir sjúkrabílar í borg þar sem milljón manns býr. Að halda úti sendiráði sem þarf sömuleiðis að sjá um hluti eins og að halda utan um bókhald og fjármál kallar á viðveru starfsmanna. Það er rosaleg áskorun að halda úti þessu starfi þarna en við vitum að verkefnin eru mikilvæg og (Forseti hringir.) málefnið mjög gott sem við höfum valið okkur.