154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

mat á menntun innflytjenda.

729. mál
[18:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja máls á mati á menntun innflytjenda sem er gríðarlega mikilvægt og eitt af því sem við erum einmitt að fjalla um í grænbók um stöðu í málefnum innflytjenda og eitthvað sem ég tel að við eigum að geta gert betur til að auka tækifæri innflytjenda hér á Íslandi og auka jöfnuð. Kærar þakkir fyrir þetta, hv. þingmaður.

Hvað varðar þær stofnanir sem eru í ráðuneytinu og fara með mat á menntun innflytjenda er í raun engin stofnun innan ráðuneytisins sem metur menntun innflytjenda í skilningi þess að meta formleg námslok ein og sér. Slíkt mat fer oftast fram innan formlega skólakerfisins. Stofnanir ráðuneytisins koma hins vegar óbeint að mati á menntun innflytjenda og þá með stuðningi, ráðgjöf og undirbúningi fyrir slíkt mat, m.a. með sérsniðnum raunfærnimatsverkefnum eða vinnumarkaðsúrræðum í því skyni að hvetja til mats á menntun eða til að mæta námsþörfum að loknu mati. Þannig er hlutverk Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir að meta vinnufærni atvinnuleitanda sem sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Við slíka umsókn er gert ráð fyrir að atvinnuleitandi leggi fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans, þar með talið upplýsingar um menntun og færni, þannig að unnt sé að veita viðkomandi þjónustu við hæfi, gefa honum kost á þátttöku í tilteknum vinnumarkaðsúrræðum og aðstoða hann við að fá starf við hæfi. Námsúrræði hafa þótt mjög mikilvæg vinnumarkaðsúrræði en Vinnumálastofnun metur það hverju sinni hvers konar námsúrræði nýtist viðkomandi atvinnuleitanda best við atvinnuleit. Hér kemur kannski almennt séð helst til greina starfstengt nám en ekki er átt við hefðbundið framhaldsskólanám eða nám á háskólastigi. Þá er vert að geta þess að umsókn um atvinnuleysisbætur felur jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum og er gert ráð fyrir að í slíkri umsókn komi fram upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og að upplýsingar séu staðfestar með fullnægjandi gögnum.

Vinnumálastofnun fer einnig með framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga og leggur í því sambandi mat á gögn sem varða menntun einstaklinga sem sækja um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi eftir því sem við á. Þar má sem dæmi taka skilyrði fyrir útgáfu tímabundins atvinnuleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, að sérfræðiþekking viðkomandi einstaklings feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi. Þar óskar stofnunin eftir viðeigandi gögnum sem staðfesta menntun viðkomandi ef stofnunin telur slíkt nauðsynlegt.

Síðan spurði hv. þingmaður um skyldur framhaldsfræðslunnar varðandi mat á menntun innflytjenda og hún fellur jú líka undir málefnasvið ráðuneytis míns en er í höndum fræðsluaðila í samræmi við lög um framhaldsfræðslu. Þessir fræðsluaðilar geta verið símenntunarstöðvar og fræðslufyrirtæki sem verða þó að hafa viðurkenningu til að starfrækja framhaldsfræðslu og eru oftast rekin sem félög eða sjálfseignarstofnanir. Það eru fjölmargir hagsmunaaðilar sem koma að framhaldsfræðslunni en málaflokkurinn byggir á samstarfi ríkisins og samtaka á vinnumarkaði sem koma að námi fullorðinna með stutta skólagöngu. Framhaldsfræðslan hefur ekki það hlutverk að leggja mat á menntun innflytjenda og það er ekki sérstaklega fjallað um innflytjendur í lögum um framhaldsfræðslu en í markmiðsákvæði laganna, og það er mikilvægt að taka það fram, segir að það sé m.a. að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið sé mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni. Framhaldsfræðslan er síðan skilgreind í lögum sem vottað nám, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat og styrkveitingar til nýsköpunar og þróunarverkefna. Með setningu laganna var horft til þess að mynda fimmtu grunnstoð menntakerfisins sem yrði hliðsett öðrum stoðum eða skólastigum.

Ég ætla að lokum að geta þess að það er unnið að heildarendurskoðun laga um framhaldsfræðslu í víðtæku samstarfi við hagaðila en ég kem kannski betur inn á það í síðara svari.