154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

mat á menntun innflytjenda.

729. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem gerðu hér athugasemdir. Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu er mikilvægt skref að vera komin með þjónustugáttina fyrir mat á námi og starfsréttindum. Af svörum ráðherra dreg ég þá ályktun að við þurfum einhvern veginn að skýra betur aðkomu mismunandi stofnana þar á bak við og í rauninni hafði ég ekki áttað mig á þeim fjölþætta snertifleti sem Vinnumálastofnun hefur við upplýsingar um mat á menntun, reynslu og þekkingu þeirra sem hingað flytjast. Ég held að við getum velt fyrir okkur hennar hlutverki í að beina fólki í réttar áttir.

Ég velti líka fyrir mér hvort tryggt sé að sá sem þarf að bæta við sig námi geti nýtt það sem hann fær út úr matinu til að komast áfram rétta leið hjá framhaldsfræðslunni, framhaldsskólunum eða í háskólakerfinu. Erum við með leiðbeiningar um næstu skref þar sem eitthvað vantar upp á menntun eða færni til að öðlast starfsréttindi?

Svo langaði mig aðeins að nefna það að ég fagna auðvitað þeirri heildarsýn sem var nýlega kynnt af ríkisstjórninni í málefnum útlendinga og innflytjenda. Þar eru m.a. aðgerðir sem ætlað er að jafna tækifæri í íslensku samfélagi. Í þeirri áætlun koma fram hugtök sem eru áhugaverð en ég átta mig ekki alveg á hvar þau falla að núverandi kerfi. Það eru hugtök eins og menntabrú og miðstöð ævimenntunar. En kannski gefst betra tækifæri til að ræða það hér á eftir þegar við ræðum um raunfærnimat, sem einnig er mjög mikilvægt við mat á námi.