154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

raunfærnimat.

735. mál
[18:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra svörin. Það er algerlega ljóst, m.a. af þeirri tölfræði sem hæstv. ráðherra vitnaði til frá fræðslusjóði, að raunfærnimat er mikilvægt verkfæri, bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf þar sem fjöldi einstaklinga nýtir sér aðferðafræðina. Sumir bæta við sig námi en aðrir styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og atvinnulífið nýtur góðs af með aðgangi að fleira starfsfólki með staðfesta menntun eða færni.

Mig langar líka að draga hérna fram, og það er annað sem tölfræðin staðfestir, að aðgengi að matinu er býsna gott í gegnum námsráðgjöf símenntunarmiðstöðvanna og þeirra viðurkenndu aðila sem sinna matinu eins og Iðan. Svo má finna á vefnum næstaskref.is býsna gott yfirlit um möguleg tækifæri til raunfærnimats og hverjir sinna því. En það verður samt aldrei nægilega ítrekað að fólk sem helst þarf á þessari þjónustu að halda er ekki fólkið sem leitar mest til menntakerfisins og því er mikilvægt að snertifletirnir séu margir, eins og er á starfsstöðvum allt í kringum landið. Oft myndast snertifletir í gegnum fræðsluáætlun fyrirtækja.

En ég velti fyrir mér núna, þar sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur í rauninni verið í forystu í þróun þessa verkfæris: Hver er sýn ráðherrans á ábyrgð og forystu til framtíðar nú þegar menntamálin skiptast á þrjú ráðuneyti og raunfærnimatið er í raun á fleiri skólastigum?