154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli.

721. mál
[18:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp í fyrirspurn og við hæfi í marsmánuði eins og hv. þingmaður kom inn á í sinni framsögu. Hv. þingmaður spyr hvort unnið sé að því í ráðuneytinu að hefja reglubundna skimun fyrir krabbameini í ristli og ef svo er, hvernig þeirri vinnu miði. Hv. þingmaður rakti hér þá tímalínu sem er allt of löng og við getum öll verið sammála um það. En undirbúningurinn fyrir slíka lýðgrundaða skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi stendur nú yfir í ráðuneytinu og í samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður kom inn á mælir landlæknir með því að lýðgrunduð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hefjist og aldursbilið sem lagt er upp með er 60–69 ára hjá þeim sem eru ekki í sérstakri áhættu. Skimað verður með leit að duldu blóði í hægðum á tveggja ára fresti með svokölluðu FIT-prófi og ef blóð finnst verður gerð ristilspeglun. Síðan er gert ráð fyrir að útvíkka aldursbilið og horfa til 50–74 ára þegar reynsla er komin á þessa framkvæmd og svo fljótt sem verða má. Fyrirhugað er að einstaklingum á 51. aldursári verði boðin ristilspeglun sem frumskimun eða FIT-próf sem val.

Hér á landi er evrópskum ráðleggingum um lýðgrundaða skimun fylgt sem skimunarráð hjá embætti landlæknis hefur ráðlagt. Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur það hlutverk að annast skipulag á krabbameinsskimunum og samhæfingu hennar í samráði við þá aðila sem koma að framkvæmdinni. Í undirbúningi fyrir skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi er starfandi sérstakur verkefnisstjóri hjá Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana sem leiðir undirbúningsvinnuna fyrir komandi innleiðingu og framkvæmd ristilskimunar á landsvísu. Undirbúningsvinnan er unnin í samráði og samstarfi við ráðuneytið, embætti landlæknis, Landspítalann, Sjúkratryggingar Íslands, meltingarlækna og fleiri um þau ýmsu atriði sem lúta að skipulagi og ráðagerð.

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi krefst margvíslegs undirbúnings sem hefur tekið lengri tíma en í fyrstu var áætlað og hárrétt, sem hv. þingmaður fór hér yfir, að í mörg horn er að líta. Í lýðgrundaðri skimun er nauðsynlegt að boð í skimun og öll gagnasöfnun sé samkvæmt ráðlögðum skimunarleiðbeiningum sem koma frá embætti landlæknis. Fyrir gagnasöfnun og gagnaumsýslu vegna ristilskimunar þarf að forrita hugbúnað sem er sértækur fyrir þessa skimun. Sú forritunarvinna eru útboðsskyld og útboðsferli eru iðulega tímafrek. Ýmsir óvissuþættir hafa komið upp í þessum efnum sem hefur tekið tíma að afgreiða, því miður. Einnig þarf að skipuleggja og undirbúa allt skimunarferlið þannig að öll framkvæmd og tímasetning framkvæmdaatriða uppfylli skilgreind gæðaviðmið sem embætti landlæknis skilgreinir. Tryggja þarf samfellu í skimunarferlinu og semja við þjónustuveitendur um framkvæmd ristilspeglana. Jafnframt þarf að tryggja nauðsynlegan tækjakost fyrir greiningu á sýnum og undirbúa útboð og kaup á nauðsynlegum aðföngum.

Svo er mjög mikilvægt að móta gott ferli varðandi upplýsingagjöf þátttakenda og veita ráðgjöf varðandi skimanirnar eins og við á og heilbrigðisráðuneytið hefur lagt áherslu á að þetta sé sett í forgang hjá embætti landlæknis. Þá hefur heilbrigðisráðuneytið einnig lagt fram í fjármálaáætlun nauðsynlegan kostnað sem byggir á ítarlegum kostnaðargreiningum fyrirhugaðra framkvæmdaraðila og í takt við innleiðingaráætlunina sem er sett fram í þessum skrefum sem ég fór yfir.

Hv. þingmaður spyr jafnframt hér: Hvenær áætlar ráðherra að reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli geti þá hafist? Ég get alveg ítrekað að það er mjög miður að þetta hafi dregist með þeim hætti sem við ræðum hér. Ég batt vonir við það, miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma, að við hefðum getað farið af stað fyrir ári síðan en úr því varð ekki. En nú er áætlað að framkvæmd á lýðgrundaðri skimun fyrir krabbameini geti hafist fyrir árslok og við stefnum ótrauð að því. Ljóst er að innleiðing á ristilskimunum verður tekin upp í þessum skrefum í takt við fjárveitingar en það er mjög mikilvægt að vinna markvisst að því að leysa hverja hnökra sem upp koma vegna framkvæmdar. Það er fyrirhugað að byrja með þessa skimun sem ég fór hér yfir á aldursbilinu 60–69 ára sem verður boðið í skimun á tveggja ára fresti og ég sé ekki annað, miðað við þær fyrirliggjandi upplýsingar sem ég hef, en að við ættum að geta hafið þá skimun á þessu ári.