154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli.

721. mál
[18:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargott svar. Ég fagna því auðvitað að ráðherra telji að skimun geti hafist fyrir lok þessa árs en sporin hræða í þessum efnum og það er fullt tilefni til að halda hæstv. ráðherra vel við efnið. Ég heiti því að ef þetta verður ekki komið til framkvæmda að ári þá munum við eiga orðastað aftur á þingi.

Ég vil ítreka að hér hefur í tvígang verið samþykkt þingsályktunartillaga, ekki samhljóma en sama efnis, um að hefja eigi skipulagða skimun fyrir ristilkrabba. Í bæði skiptin voru það þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lögðu fram málið í mikilli sátt hér á Alþingi og ég fann fyrir skyldu minni til að vekja máls á þessu hér í þingsal þegar mér var bent á þessa ótrúlega löngu forsögu málsins sem varð síðan enn þá meiri eftir því sem ég kynnti mér málið betur. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta getur tekið svona langan tíma. Kannski getur ráðherra eitthvað svarað mér því hvað útskýrir þennan drátt á framkvæmdinni. Þetta er jafnvel rannsóknarefni, en ekki fyrirmyndardæmi um opinbera stjórnsýslu.

Nú í lokin verð ég að fá að bæta við að reglubundin hópleit eftir krabbameini hefur sannað sig sem gríðarlega mikilvæg aðgerð af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Það veldur mér gríðarlegum áhyggjum og ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra ætli eitthvað að aðhafast í þeim efnum að aðeins helmingur þeirra kvenna sem fengu boðun í brjóstaskimun árið 2022 mætti í skimun. Þátttaka kvenna í brjóstaskimun er lakari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Er ekki tilefni til að ráðast í alvöruátak til að hvetja konur til að fara í skimun, jafnvel skoða kostnaðarþátttökuna, kynna á fleiri tungumálum en íslensku og skoða hvernig við megum ná til ólíkra hópa? Þessi þróun veldur mér ugg og því velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra muni gera eitthvað drastískt í þessum efnum á þessu ári.