154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

líkhús og líkgeymslur.

640. mál
[19:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Líkhús og líkgeymslur eru hús sem flestir þurfa að hafa afnot af þegar yfir lýkur en það virðist hvorki vera mikill áhugi á að eiga slík hús eða reka þau. Ég lagði fram fyrirspurn um staðsetningu, eignarhald og rekstur á líkgeymslum til þriggja ráðherra á árinu 2022. Svörin við þeim fyrirspurnum voru fjarri því tæmandi en staðfesta það sem ég raunar vissi, að umönnun og geymsla líka er leyst með ýmsu og ólíku móti eftir byggðarlögum. Það er eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri þar sem kirkjugarðarnir sjá alfarið um verkefnið, þ.e. Kirkjugarðar Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar. Annars staðar hefur samfélagið leyst verkefnið með ólíkum hætti. Oftar en ekki hafa líknarfélög tekið þátt í stofnkostnaði að meira eða minna leyti og eru líkgeymslurnar ýmist í húsnæði á vegum kirkju, ríkis eða sveitarfélaga. Í einhverjum tilvikum reka einkaaðilar líkhús og þá oft á tíðum líkhús sem aðrir hafa komið á fót. Í einhverjum tilvikum tengjast kapellur eða sambærileg herbergi fyrir kyrrðar- og kveðjustundir líkgeymslunum.

Líkgeymslum hefur fækkað á síðustu árum með bættum samgöngum, sameiningu sveitarfélaga og sókna. Samfara því hefur ágreiningur vegna reksturs þeirra og aðgengis að þeim komið upp á yfirborðið. Sennilega hefur líka dregið úr því að sjálfboðaliðar sinni verkefnum tengdum líkhúsum. Kostnaður við rekstur þeirra hefur líka aukist ár frá ári, annars vegar vegna fólksfjölgunar en hins vegar vegna tilhneigingar til að lengja tímann sem líður frá andláti að útför. Þá hefur einnig komið upp ágreiningur þegar kemur að viðhaldi eða endurnýjun búnaðar tengdum líkhúsum, húsum sem oft voru byggð fyrir gjafafé og einhver hefur tekið að sér að reka jafnvel á óljósum samningsgrunni.

Mér finnst blasa við að það þurfi að skýra ábyrgð á því að halda úti og reka líkgeymslur. Eins er mikilvægt að skýra réttindi til aðgengis að líkgeymslum. Hv. þm. Jódís Skúladóttir hefur ásamt fleirum ítrekað lagt fram tillögu um skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka. Í umsögnum sem borist hafa um þá tillögu og af fréttum og greinum sem birst hafa í fjölmiðlum síðustu misseri um þetta efni má ráða að úrbóta er þörf. Ég hef því lagt hér fram skriflega fyrirspurn í sex liðum sem liggur frammi og ég vonast eftir skýrum svörum hæstv. dómsmálaráðherra við þeim. Sérstaklega finnst mér mikilvægt að heyra af áformum ráðherra til úrbóta, svo sem varðandi skipan starfshóps, breytingu á lögum eða öðrum breytingum á starfsumgjörðinni.