154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

líkhús og líkgeymslur.

640. mál
[19:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra Guðrúnu Hafsteinsdóttur svörin. Mér finnst mjög gott að heyra að unnið sé að samantekt á upplýsingum um líkhúsin, hvar þau eru og hver rekur þau en vil leggja áherslu á að í þeirri samantekt verði líka dregið saman hver kom þeim upp, því að það er oft allt annar aðili en rekur þau í dag, eða þau voru jafnvel byggð fyrir gjafafé eins og ég kom inn á áðan. Ég held að það skipti máli.

Ég fagna líka áformum ráðherra um lagasetningu og ég held að það sé mjög brýnt að það verði unnið hratt. Það er mikilvægt að leysa úr brýnum fjárhagsvanda þeirra líkhúsa sem rekin eru af kirkjugörðunum og hafa alla vega sumir þeirra fullyrt að bent hafi verið á þennan vanda í 17 ár, en sá ráðherra sem hér er hefur vissulega ekki verið í ráðuneytinu í 17 ár. Og það er mikilvægt að skýra leikreglurnar, t.d. ef ætti að veita kirkjugörðunum heimild til innheimtu þjónustugjalda. Ég vil líka leggja áherslu á að rekstur annarra líkhúsa og líkgeymslna en kirkjugarðarnir reka er ábyggilega oft greiddur af fjárveitingum sem í raun eru ætlaðar í annað, eða þá að reksturinn byggir á sjálfboðastarfi af einhverju tagi og líka umönnun líkanna. Í minni byggðarlögum sýnist mér að víðast hvar væri eðlilegt að tengja staðsetninguna við heilbrigðisstofnanir eða hjúkrunarheimili eins og er gert, því að þar eru nú þegar kælar til staðar og vandséð að það sé skynsamlegt að reka fleiri en einn líkkæli í sama byggðarlaginu. Á heilbrigðisstofnunum er jafnframt starfsfólk til staðar sem hefur sérþekkingu í meðferð líka. Allt þetta verður jú að leggjast yfir eins og hæstv. ráðherra kom inn á.