154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er fyrsti kaflinn í sögunni um vörur til skyndihjálpar. Í þessum fyrsta kafla verður farið víða á einungis tveimur mínútum, allt frá Apóteki Hafnarfjarðar til Vinnumálastofnunar, til Bankasýslunnar, til samfélagsmiðla, til Landspítalans til opnir reikningar.is og að lokum til hælisleitenda og Hávamála. Hefst nú sagan:

Elds er þörf

þeim er inn er kominn

og á kné kalinn.

Matar og voða er manni þörf,

þeim er hefir um fjall farið.

Sögu nokkurri hefur verið dreift á fésbókinni að undanförnu þar sem er borið upp á hælisleitendur að þeir fái allt frítt í apótekum; fínt krem, sjampó og lyf og þeir tæmi hillurnar. Undir það tekur starfsmaður í Apóteki Hafnarfjarðar sem segist varla hafa við að fylla á hillurnar og allt sé það skrifað á ríkið. „Alls konar dýrar vörur sem maður leyfir sér ekki sjálfur var hreinlega hamstrað út.“ Slík er sagan úr Hafnarfirði. Víkur þá sögunni að opnum reikningum ríkisins þar sem er að finna næstum alla reikninga ríkisins til birgja. Bankasýsluna er hins vegar hvergi þar að finna og þar lýkur líklega aðkomu Bankasýslunnar að þessarar sögu. Þegar nánar er skoðað þá finnast reikningar þar frá Apóteki Hafnarfjarðar til Vinnumálastofnunar allt frá upphafi síðasta árs þegar það er skoðað, og væntanlega lengur, fyrir rétt rúma milljón íslenskra króna, aðallega frá nóvember á síðasta ári, en líka eitthvað frá því í mars. Allir reikningar nema einn eru merktir sem vörur til skyndihjálpar. En þegar nánar er að gáð þá er það eina stofnunin sem kaupir vörur til skyndihjálpar, þ.e. Vinnumálastofnun. Bókhaldsvandamál. Á síðasta ári keypti Vinnumálastofnun slíkar vörur fyrir 112 millj. kr. þar af tvær færslur upp á samtals 17 milljónir frá Landspítalanum. Við höfum það alveg frá Hávamálum að taka vel á móti gestum, sérstaklega þeim sem hafa átt erfiða leið, en sagan sem hér er sögð er af fínum kremum sem eru bókuð sem vörur til skyndihjálpar í reikningum ríkisins (Forseti hringir.) því ég fer varla að efast um sannleiksgildi orða starfsmanna Apóteks Hafnarfjarðar, að fín krem hafi verið keypt. (Forseti hringir.) Það er hins vegar útilokað að Vinnumálastofnun hafi borgað fyrir það. Það er einungis greitt fyrir lyfseðil, fyrir lyf sem læknir telur vera nauðsynleg.