154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Eins mikilvægt og ég tel alþjóðastarf vera þá skal ég vera fyrstur til að viðurkenna að það er mismikill tilgangur með alþjóðastofnunum. Þannig held ég að NAMMCO, Norður-Atlantshafs-sjávarspendýraráðið, sé fyrir utan að vera með eitt lengsta nafnið mögulega að verða ein sú tilgangslausasta í flóru alþjóðastofnana. Þessi stofnun var sett á laggirnar sem nauðsynlegt viðbragð við fýlukasti íslenskra stjórnvalda eftir að alþjóðasamfélagið var sammála um að hætta hvalveiðum. Við það sagði Ísland sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1991 en obbosí, hafréttarsamningurinn gerir kröfu á aðildarríki um að þau eigi alþjóðlegt samstarf um málefni sjávarspendýra. Því tók Ísland sig til ásamt Noregi, Grænlandi og Færeyjum og stofnaði NAMMCO undir því yfirskini að halda áfram alþjóðasamvinnu um þessar tegundir. Þetta var sem sagt hvalveiðisamkunda. Þetta var hópur ríkja sem vildi standa vörð um rétt til að veiða hval. Svo gerðist það árið 2002 að Ísland gekk aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið. Þá hefði maður haldið að þessi fýlustofnun sem var sett á laggirnar utan um hvalveiðiáhuga Íslands gæti einfaldlega bara heyrt sögunni til. En nei, hún er enn starfandi og háttar svo til að þessa dagana er boðað til 31. fundar NAMMCO hér í Reykjavík. Mig langar bara að taka undir með samtökunum Hvalavinum sem hvetja til að frekar en að halda svona fundi þá segi Ísland sig úr NAMMCO og hætti hvalveiðum, banni þær. Ég vil reyndar ganga lengra og beini því bara til stjórnvalda að leggja NAMMCO (Forseti hringir.) einfaldlega niður. Það er óþarfa tvíverknaður eða gullhúðun, eins og það heitir í sumum flokkum, að vera með tvær alþjóðastofnanir (Forseti hringir.) að sinna verkefni sem ein getur fullvel sinnt. Sturtum þessu NAMMCO bara aftur (Forseti hringir.) í fortíðina og stöndum vörð um Alþjóðahvalveiðiráðið og hættum að veiða hval eins og einhverjir barbarar.