154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég ætla að segja ykkur stutta sögu af tilurð Bankasýslu ríkisins sem er búin að vera í umræðunni allmikið upp á síðkastið, sælla minninga eftir söluna á Íslandsbanka og svo nú hvað lýtur að þeim gjörningum sem eiga sér stað með Landsbankann sem er að fara að kaupa Tryggingamiðstöðina. En Bankasýslan var stofnuð með lögum þann 20. ágúst 2009 og mig langar að lesa 9. gr. laga um Bankasýsluna sem segir náttúrlega einfaldlega, með leyfi forseta:

„Lok starfseminnar. Stofnunin skal hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún er sett á fót og verður hún þá lögð niður.“

Það er algerlega hafið yfir allan vafa samkvæmt orðanna hljóðan hvað þessi 9. gr. merkir: Eftir fimm ár skyldi leggja Bankasýsluna niður, þannig að þessi sama bankasýsla starfaði í lagalegu tómarúmi í tæp fimm ár. Hver man ekki eftir sölunni á Borgun? Í lagalegu tómarúmi er þá Bankasýslan algerlega með engin lög og enga heimild til að starfa á þeim grundvelli sem markmiðið með lögunum árið 2009 hafði sett utan um hana. Hver man ekki eftir því að við seldum 13% hlut okkar í Arion banka? Bankasýslan hafði enga heimild, ekkert lagalegt umboð til að gera það heldur. Því starfaði þessi stofnun án umboðs í hálfgerðu tómarúmi — í algeru tómarúmi frá 20. ágúst 2014 til 5. febrúar 2019 þegar þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, felldi 9. gr. brott úr löggjöfinni og gerði það að verkum að hún fékk heimild sína aftur. En á öllum þessum tíma var þessi stofnun í lagalegu tómarúmi að taka tugi og hundruð milljóna frá ríkissjóði í algeru heimildarleysi og það er í rauninni ekki skrýtið þó að ég velti því fyrir mér: Voru þetta lögmætir gjörningar sem voru gerðir á þessu tímabili í umboði og af Bankasýslu ríkisins?