154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur talsvert verið rætt um aðkomu hæstv. fjármálaráðherra og íslenskra stjórnvalda að í raun því bindandi kauptilboði sem nú er komið fram fyrir hönd Landsbanka Íslands í TM. Ég held að það væri eðlilegt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er nú kominn til landsins að rými verði gefið hérna í dagskránni til að ræða þetta mál með formlegri hætti. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun óska eftir því við forseta þingsins að slíkt rými verði gefið núna fyrir páska til að fá ráðherra hingað í hús og gefa munnlega skýrslu svo að við vitum um aðkomu hennar að þessari ákvörðun sem og öll samskipti hennar við Bankasýsluna. Ég ætla að líka að upplýsa um það sem ég hef gert á opinberum vettvangi, að ég mun í gegnum hv. fjárlaganefnd óska eftir öllum upplýsingum um samskipti núverandi hæstv. fjármálaráðherra við Bankasýsluna frá því að hún tók við þessu embætti þannig að við vitum meira um þetta mál og vonast til að vel verði tekið í þessa beiðni okkar í Samfylkingunni.