154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að taka undir þá beiðni að fjármálaráðherra mæti hingað í þingið og geri grein fyrir stöðu mála sem snúa að Landsbankanum og auðvitað að Bankasýslunni líka sem hefur boðað ósk um að fresta aðalfundi eða ársfundi Landsbankans. Ég tel það mjög brýnt að viðeigandi nefnd, sem ég held að ég fari rétt með að sé efnahags- og viðskiptanefnd, mín nefnd, fái upplýsingar um hvað standi eiginlega til að gera og sömuleiðis að ráðherra svari fyrir þetta áður en þingið fer í páskaleyfi vegna þess að meðan á því stendur held ég að það verði svo gott sem ómöguleiki að fá einhverjar skýringar frá ráðherra miðað við hvernig hlutirnir virka hérna alla jafna. Og í ljósi þeirra hræringa sem eru í gangi varðandi Landsbankann og þeirra hótana sem ganga um að mögulega eigi að fara af stað með eitthvert einkavæðingarferli á þeim banka þá held ég að það sé mjög mikilvægt að ráðherra komi hingað og geri þinginu grein fyrir stöðu mála áður en það fer í páskafrí (Forseti hringir.) og þrjár vikur verða látnar líða frá því að fjármálaráðherra kom með digurbarkalegar yfirlýsingar um einkavæðingu á bönkum og því að hún hafi ekki haft hugmynd um hvað væri að gerast í þessum banka.