154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að við séum að ræða þetta. Við ættum að muna eftir bankahruninu og hvað varð um tryggingafélög þá. Þau hurfu nú sum alveg yfir til Asíu og enduðu síðan sem veð í sundlaug á Álftanesi, þannig að það ætti að segja okkur eitthvað. En ég spyr mig: Hvers vegna er Kvika banki að selja tryggingafélag og hvers vegna er Landsbankinn að kaupa tryggingafélag? Hver er að tapa og hver er að græða? Eins og við höfum oft heyrt þá tryggjum við ekki eftir á því að þá er voðinn vís þannig að ég er að spá í hvort Kvika banki sé að selja gullgæsina sína og hvers vegna hún sé þá að gera það. Hver er ástæðan á bak við þetta? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum Landsbankinn er að eyða nærri 30 milljörðum í þetta og ætlar bara að borga „cash“ á sama tíma og ríkissjóður er að fá heimild til að taka 30 milljarða kr. lán. Af hverju færðu þeir ekki bara þessa peninga á milli og slepptu láninu?