154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

kvikmyndalög.

486. mál
[14:25]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er mjög gott mál og við Píratar munum greiða atkvæði með því. En það hefur komið fram í umsögnum, og ég vil bara ítreka þau sjónarmið hér, að það er mikilvægt að þessum nýja styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs fylgi fjárframlög. Í umsögn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda kemur fram, með leyfi forseta, að nauðsynlegt sé „tryggð verði heimild til hækkunar á fjárlögum til Kvikmyndasjóðs til þess að nýr styrkjaflokkur teljist raunhæfur. Að óbreyttu gengur nýr styrkjaflokkur á önnur verkefni innan sjóðsins“.

Ég tel mikilvægt að komið verði til móts við sjónarmið og fjárframlög verði tryggð. Stuðningur við listir er gríðarlega góð fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.