154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árið 2024–2027.

Helstu atriði ályktunarinnar sem koma fram í þessari framkvæmdaáætlun er byggð á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin felur í sér 57 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Við fjölluðum að sjálfsögðu um málið í nefndinni, fengum á fundi okkar gesti og fengum talsvert af umsögnum og það kemur fram í því nefndaráliti sem liggur hér frammi.

Meiri hlutinn telur framkvæmdaáætlunina jákvæðan og mikilvægan lið í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við áframhaldandi vinnu og innleiðingu þeirra aðgerða sem tilgreindar eru í áætluninni leggur meiri hlutinn áherslu á að samráð verði haft við hagsmunaaðila og að aðgerðum verði tryggt fjármagn, líkt og fram kom í umsögnum sem nefndinni bárust. Við umfjöllun nefndarinnar bárust ábendingar um að betur færi á því að framkvæmdaáætlun sem þessi yrði gefin út í auðlesnara formi í samráðsferlinu og við þinglega meðferð. Með því mætti tryggja betra aðgengi að samráðsferlinu. Nefndin tekur undir þær ábendingar og hvetur ráðuneytið til þess að horfa til þess í framtíðinni.

Þá bendir meiri hlutinn á tengsl aðgerðar B.3. um Miðstöð um auðlesið efni við aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023–2026, sem er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd hér á Alþingi. Aðgerðum í þeim lið er m.a. ætlað að auka framboð af námsefni og námsgögnum, námskeiðum, textun á íslensku og fleiru, en auðlesið efni getur einmitt aukið aðgengi ólíkra hópa að íslenskunni.

Meiri hlutinn leggur til að við framkvæmdaáætlunina bætist aðgerðir í þremur liðum. Í fyrsta lagi er lagt til að við bætist nýr liður þess efnis að stofnaður verði vinnuhópur sem skoði leiðir til þess að auka þátttöku fatlaðs fólks í menningarlífi, bæði hvað varðar aðgengi að listum og menningu og listsköpun. Meiri hlutinn áréttar í því sambandi mikilvægi þess að fötluðu fólki sé tryggð þátttaka í menningarlífi til jafns við aðra. Þá er mikilvægt að stutt verði við listsköpun fatlaðs fólks og aðgengis þeirra að listnámi. Tillagan byggist á 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveðið er á um að aðildarríki skuli viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og tryggi því tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið. Gott aðgengi að listum og menningararfi er einn af meginþáttum menningarstefnu ríkisins sem sett var árið 2013. Eitt markmiða hennar er að aðgengi að menningu verði sem best tryggt fyrir alla þjóðfélagshópa. Í 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, kemur fram að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra. Stoðþjónusta skal m.a. miðast við þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.

Í öðru lagi er lagt til að við bætist liður um þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk. Hinn 15. desember 2023 undirrituðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið kveður m.a. á um að skipa skuli sérstakan framtíðarhóp með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að vinna að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk með það að markmiði að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu. Samhliða veiti ríki og sveitarfélög tímabundið framlag til þróunarkostnaðar. Það framlag verði háð skilyrðum sem taka mið af framgangi og árangri verkefna. Meiri hlutinn leggur til að starfshópurinn ráðist í fjölbreytta greiningarvinnu og tilraunaverkefni sem taki m.a. mið af tillögum starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk sem fram koma í áfangaskýrslu I. Miðar aðgerðin við að hópurinn skili tillögum fyrir árslok 2025 og áfangaskýrslu á árinu 2024. Liðurinn tekur mið af 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar kemur fram að til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólki skuldbindi aðildarríkin sig til að framkvæma eða gangast fyrir rannsóknum og þróun á nýrri tækni og sjá til þess að hún sé tiltæk og notuð. Að lokum leggur meiri hlutinn til að við bætist liður um samræmdari þjónustu við fatlað fólk og betri nýtingu fjármuna.

Í 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um jafnrétti og bann við mismunun. Í því felst viðurkenning á að allar manneskjur séu jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eigi rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurrar mismununar. Ljóst er að töluverður munur getur verið á þeirri þjónustu sem stendur fötluðu fólki til boða eftir búsetu. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf er kveðið á um að tryggja þurfi jafnræði í þjónustu við fatlað fólk, m.a. með samráði ríkis og sveitarfélaga um endurmat á kostnaði við málaflokk fatlaðs fólks. Sumarið 2022 skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra starfshóp sem falið var að vinna að mótun tillagna um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Hópurinn lauk fyrsta áfanga með gerð stöðuskýrslu og tillagna í janúar 2024. Til þess að ná öðrum áfanga verkefnisins hefur hópnum verið falið að vinna tillögur að fyrirkomulagi og nýtingu samræmds mats á þjónustuþörfum, framkvæmd þriðja stigs þjónustu, stærð þjónustusvæða og uppbyggingu húsnæðisúrræða til framtíðar. Meiri hlutinn leggur til að starfshópnum verði einnig falið að meta þörf fyrir laga- og reglugerðabreytingar í því skyni að gera stjórnvöldum betur kleift að veita betri og samræmdari þjónustu á hagkvæman hátt og eftir atvikum undirbúa drög að lagafrumvörpum og reglugerðum þess efnis. Lagt er til að starfshópurinn skili tillögum sínum í júní 2024.

Að öðru leyti vísa ég til breytingartillagna sem koma fram nefndaráliti meiri hlutans.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í nefndarálitinu og ég hef hér gert grein fyrir. Undir þetta nefndarálit álit rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Jóhann Páll Jóhannsson.

Virðulegi forseti. Það er vert að nefna að þessi áætlun sem við hér fjöllum um var unnin í miklu og góðu samráði við fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra, við fulltrúa sveitarfélaga og líka við önnur ráðuneyti enda mörg sem koma að. Vinnan var umtalsverð og störfuðu ellefu vinnuhópar með verkefnastjórn að mótun áætlunarinnar og skiptu með sér 33 ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna og mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins. Það sem mér finnst afar ánægjulegt í þessu sambandi ekki síst er að fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks leiddu þetta hópastarf og ég er ekki viss um að það hafi verið gert áður í svo viðamikilli vinnu.

Aðgerðirnar sem þessi áætlun nær yfir, þ.e. á tímabilinu 2024–2027, eru á ábyrgð níu ráðuneyta. Þær eru fjölbreyttar og snerta þess vegna mörg málefnasvið, stofnanir, sveitarfélög og aðra hagaðila. Afar víðtækt samráð var haft, eins og ég sagði áður, og ég vil rifja það upp að frá maí til ágúst hélt hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson tíu opna fundi ásamt fulltrúum ráðuneytisins og hagsmunasamtökunum. Níu fundir voru haldnir vítt og breitt um landið og einn var haldinn rafrænt.

Eins og ég kom að hér að framan var talsvert rædd í nefndinni kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Við þekkjum vel umræðu undanfarinna ára um fjármögnun málaflokksins og stundum hefur það gleymst sem gott er gert hjá báðum aðilum. Ég hef átt samtöl við fatlað fólk sem hefur liðið fyrir þessa umræðu þar sem því hefur á stundum fundist sem það væri byrði á samfélaginu, sem það er að sjálfsögðu ekki. En um leið vil ég segja til að ljúka umræðu um kostnaðarmat vegna aðgerðanna að þá mun það ávallt verða unnið í samvinnu við sveitarfélög þar sem það á við, en samráð milli ríkis og sveitarfélaga er forsenda laga- og reglugerðarbreytinga hvað varðar þjónustu í þessum málaflokki.

Þessi þingsályktunartillaga er mikilvægur liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að lögfesta skuli samninginn á kjörtímabilinu og er það löngu tímabært. Eins og ég sé rakið hér í nefndaráliti minni hlutans þá er þetta auðvitað búið að dragast úr hófi fram og löngu, löngu tímabært að við klárum okkur af þessari vinnu. Ráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp um lögfestinguna síðar á kjörtímabilinu þar sem forsætisráðherra heldur utan um þessa vinnu. Um leið er stefnt að því að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn en bókunin felur í sér kvörtunarleið til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vegna brota á samningnum.

Markmið samningsins eru mikilvæg því að þau eiga að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess. Í samningnum er einnig kveðið á um réttindi kvenna og barna og málefnasviðin þar sem aðgerða aðildarríkja er þörf, svo sem á sviði vitundarvakningar, tölfræði- og gagnasöfnunar og alþjóðlegs samstarfs. Stór hluti aðgerðanna heyrir undir vitundarvakningu og fræðslu, enda er gríðarlega mikilvægt að auka vitund almennings um stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í samfélaginu. Það er svo miklu auðveldara að innleiða breytingar þegar skilningur og þekking eru til staðar. Eins og ráðherra hefur verið óþreytandi að vinna að þá er hér lögð áhersla á að auka sýnileika fatlaðs fólks í almennri umræðu, ekki bara á grundvelli fötlunar sinnar heldur sem sérfræðingar og neytendur. Um leið er þörf á að auka þekkingu og meðvitund almennings og fagfólks í ýmsum stéttum um réttindi fatlaðs fólks og þær skyldur sem samningurinn felur í sér.

Eins og ég kom inn á hér áðan þá er eitt af því sem er mikilvægt að haldi áfram að þróast og þarf að koma til á fyrri stigum aðgengi að auðlesnu efni. Nú má sjá á vefnum audlesid.is helstu áherslur í frumvarpi um örorkulífeyriskerfið sem er vel. Slíkar upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda þannig að öll geti haft áhrif á fyrstu stigum.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á og bregðast við nefndaráliti 1. minni hluta og kannski taka undir varðandi þann hóp barna sem býr á tveimur heimilum. Við höfum svo sem áður rætt það í nefndinni, ekki undir þessu máli sérstaklega en það hefur komið fram hjá nefndinni að þetta er þarna brotalöm og þetta þarf að laga til þess að börn geti búið hjá báðum fjölskyldum sínum ef um slíkt er að ræða og að þar verði hægt að koma upp viðeigandi aðstöðu og búnaði þannig að barn geti notið samvista við báða foreldra sína, enda er það réttur þess að svo megi vera. Þetta er eitt af því sem ráðherra hefur tekið til sín og ég trúi að verði gerð bragarbót á.

Þetta vildi ég segja varðandi það sem fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta. Þetta tilheyrir því kannski, frumkvæðisskylda opinberra aðila varðandi upplýsingar og réttindi og annað slíkt, að það er kannski akkúrat þetta sem ég er hér að drepa á, að stjórnvöld sérstaklega þurfa líka að vera með þetta í forgrunni, að veita aðgengilegar upplýsingar frá fyrstu stigum og sjá til þess að aðrar stofnanir sem þarna eru undir geri slíkt hið sama.

Virðulegi forseti. Þjónusta við fatlað fólk bæði á og þarf að vera í sífelldri þróun og endurskoðun samhliða þeirri samfélagsþróun sem á sér stað á hverjum tíma. Við megum ekki dragast aftur úr þegar kemur að réttindamálum fatlaðs fólks því að þar höfum við svo sannarlega ekki staðið okkur fram til þessa nógu vel þrátt fyrir að líklega hafi sjaldan verið meira gert, þrátt fyrir að mörgum þyki ekki nóg að gert hefur líklega sjaldan verið jafn mikið gert í málefnum fatlaðs fólks og á þessu yfirstandandi kjörtímabili.