154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að byrja á því að biðjast afsökunar á því að hans er ekki getið, og ég bið um að það verði a.m.k. gert rafrænt, í því að styðja nefndarálit meiri hlutans. Það eru bara mistök sem fóru fram hjá bæði mér og nefndarritara því það er hárrétt að hv. þingmaður var búinn að gera grein fyrir því við lokaafgreiðslu málsins, þó að hann hafi ekki verið viðstaddur þegar það átti sér stað, að hann styddi málið. Þannig að við alla vega látum breyta því.

En hvað varðar Mannréttindastofnun Íslands er þetta einn þáttur og það er kannski hægt að gera þetta með öðrum hætti en auðvitað er það mikilvægt, það er mjög mikilvægt að þessi mannréttindastofnun nái fram að ganga. Það útilokar ekki að þetta geti orðið að veruleika, alls ekki. Það er ekki svo. En það styrkir stöðu okkar verulega að gera þetta með þessum hætti og skiptir máli er varðar tiltekna vottun og annað slíkt sem ég kannski kann ekki í smáatriðum að fara í gegnum en ég veit að það er þannig. Ég ítreka það enn og aftur og vonast til þess að við náum að lenda því að Mannréttindastofnun verði afgreidd hér til þingsins og við getum klárað okkur af því máli því að það er líka margt annað sem er þar undir. Þetta er ekki bara gagnvart fötluðu fólki, Mannréttindastofnun auðvitað tekur utan um miklu meira en það og eins og ég segi vona ég að okkur auðnist að klára það mál og það myndi styrkja þetta enn frekar.