154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, frá 1. minni hluta velferðarnefndar.

Framkvæmdaáætlun þessi er um margt góð, en því miður eru dæmi um að ekki sé gengið nógu langt til að ná tilteknum markmiðum og einnig eru dæmi um aðgerðir sem fresta í raun löngu lofuðum úrbótum á réttarstöðu fatlaðs fólks. 1. minni hluti fagnar þó framkvæmdaáætluninni að mestu leyti þar sem unnið er að ýmsum aðgerðum til að styrkja og bæta stöðu fatlaðra. Margar þær aðgerðir sem áætlunin boðar eru sagðar mikilvægur liður í lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 1. minni hluti bendir á að ríkisstjórnin hefur haft fjölda ára til að ganga frá lögfestingu samningsins og það er ámælisvert hversu langan tíma sú vinna hefur tekið.

Með þingsályktunartillögunni er lögð fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, sem byggist á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin felur í sér 57 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Velferðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið nokkurn fjölda umsagna og einnig tekið á móti gestum til að ræða áætlunina.

Fyrsti minni hluti tekur undir ýmis sjónarmið sem koma fram í umsögnum Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ réttindasamtaka. Í fyrsta lagi bendir 1. minni hluti á að meðal aðgerða til að stuðla að vitundarvakningu skv. 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til að standa fyrir og vinna stöðugt að árangursríkum átaksverkefnum um vitundarvakningu hjá almenningi sem miða m.a. að því að gera almenning móttækilegan fyrir réttindum fatlaðs fólks, að styrkja jákvæða ímynd fatlaðs fólks og efla samfélagslega vitund um málefni þess, að stuðla að viðurkenningu á færni, verðleikum og getu fatlaðs fólks sem og á framlagi þess til vinnustaða sinna og vinnumarkaðarins.

Aðgerð A.12. í framkvæmdaáætluninni fjallar um bætt aðgengi að upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess. Þessi liður er vissulega til bóta enda er aðgengi ein af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks, en þó hefur láðst að skerpa á frumkvæðisskyldu hins opinbera, sbr. 8. gr. samningsins. Tekið er undir sjónarmið sem komu fram í umsögn ÖBÍ um að virk frumkvæðisskylda sé grunnstoð upplýstra réttinda og dragi úr líkum þess að fatlað fólk falli á milli í kerfinu, og að það verði að setja aukna ábyrgð á opinberar stofnanir til að framfylgja frumkvæðisskyldu sinni, og að unnið verði að einföldun í stjórnkerfinu til að draga úr flækjustigi.

Aðgengi fatlaðra kemur einnig til skoðunar, en stafræn þróun hefur verið hröð á Íslandi og þar hefur fatlað fólk verið skilið eftir að ákveðnu leyti. Skýrt dæmi um að ríkið sinni ekki skyldum sínum hvað aðgengi varðar er tiltölulega nýlegur úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 14/2022, þar sem fram kom að brotið hefði verið gegn lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, með því að neita útgáfu rafrænna skilríkja til kæranda vegna fötlunar hans. Aðgerð B.1. felst í því að tryggja stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi á heimasíðum opinberra aðila og aðgerð B.2. felst í þróun lausna til að greiða aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni þjónustu, með áherslu á aðgengi að heilbrigðisgáttum og fjármálaþjónustu bankastofnana. Það er gott að unnið er að marktækum lausnum hvað þessi atriði varðar en það er með öllu ljóst að í lausninni verður að felast aðgengi fatlaðs fólks að þjónustunni til jafns við aðra og aðrar lausnir eins og talsmannakerfi verður að telja tímabundna viðbót meðan á verkefninu stendur, eins og kemur fram í umsögn ÖBÍ.

E-liður tillögunnar fjallar um þróun þjónustu og í aðgerð E.2. er lagt til að vinnuhópur fulltrúa sveitarfélaga, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks endurskoði gildandi leiðbeiningar um akstursþjónustu fatlaðs fólks með tilliti til hugmyndafræðinnar um aðgengi fyrir alla. Leiðbeiningar voru endurskoðaðar síðast árið 2020 og að mati hagsmunaaðila eru þær mjög góðar. Í umsögn ÖBÍ kemur fram að vandinn liggi helst í því að leiðbeiningum sé ekki fylgt. Þar kemur einnig fram að Samband íslenskra sveitarfélaga ætlaði að leggja fram viðmið um samkomulag um ferðir milli sveitarfélaga fyrir 1. september 2020 en hefur enn ekki gert það. Auk þess hafi verið lögð sú ábyrgð á sveitarfélög að endurskoða reglur sínar með hliðsjón af umræddum leiðbeiningum eigi síðar en sex mánuðum eftir útgáfu þeirra og að reglurnar yrðu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Sveitarfélög hefðu því átt að endurskoða reglur sínar um akstursþjónustu fyrir 22. nóvember 2020 og aftur innan tveggja ára. Það liggur fyrir að fæst sveitarfélög landsins hafa breytt reglum sínum og sú takmarkaða þjónusta sem þau veita er á grundvelli brottfallinna laga, nr. 59/1992. 1. minni hluti tekur undir þau sjónarmið að áður en farið er að skipa nýja vinnuhópa um að endurskoða leiðbeiningarnar ætti frekar að framfylgja þeim leiðbeiningum sem settar hafa verið. Undanfarið hafa fjölmiðlar fjallað um alvarleg atvik þar sem öryggi fatlaðs fólks er ógnað vegna vanrækslu aðila sem sjá um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Slíkt er algerlega óviðunandi. Að það skuli geta gerst að fatlað barn týnist vegna mistaka eða vanrækslu af hálfu þeirra sem áttu að flytja barnið milli staða er þjóðfélagi okkar til skammar.

Húsnæðisöryggi er jafnframt ein af lykilforsendum viðunandi lífskjara. 1. minni hluti tekur undir sjónarmið ÖBÍ að það sé óþarfi að skipaður verði annar starfshópur sem skuli móta tillögur um húsnæðisöryggi þegar tillögur til að efla húsnæðisöryggi liggja nú þegar fyrir, sbr. ítarlegar tillögur vinnuhópa sem störfuðu með verkefnastjórn að mótun landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Þetta er skýrt dæmi um að ríkisstjórnin ætli sér eina ferðina enn að fresta löngu lofuðum úrbótum.

Húsnæðisöryggi er jafnframt ein af lykilforsendum viðunandi lífskjara. 1. minni hluti tekur undir sjónarmið ÖBÍ að það sé óþarfi að skipaður verði annar starfshópur sem skuli móta tillögur um húsnæðisöryggi þegar tillögur til að efla húsnæðisöryggi liggja nú þegar fyrir, sbr. ítarlegar tillögur vinnuhópa sem störfuðu með verkefnastjórn að mótun landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Þetta er skýrt dæmi um að ríkisstjórnin ætli sér eina ferðina enn að fresta löngu lofuðum úrbótum.

Sjálfstæði og sjálfstætt líf er ein af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Ein af grundvallarforsendum sjálfstæðis fatlaðs fólks er að rétturinn til viðunandi lífskjara verði að veruleika, sbr. 1. mgr. 28. gr. samningsins. Í því skyni þarf að bæta í tillöguna að kjör fatlaðs fólks almennt verði bætt. Greiðslur almannatrygginga hafa ítrekað hækkað minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs og á sama tíma hafa greiðslurnar ekki heldur náð að fylgja launaþróun. Frítekjumörk vegna lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna hafa verið óbreytt frá árinu 2009. Frítekjumark vegna atvinnutekna stóð í stað frá árinu 2009 allt til ársins 2023 þegar það var loks hækkað. Stjórnvöld hafa aldrei viðurkennt nauðsyn þess að kjaragliðnun öryrkja verði leiðrétt, bæði afturvirkt og til frambúðar og er það til vansa.

Fyrsti minni hluti vill einnig minnast á þann hóp fatlaðra barna sem tilheyrir fjölbreyttu fjölskyldumynstri. Það er þörf á því að kortleggja stöðu og réttindi fatlaðra barna sem búa á tveimur heimilum og einnig foreldra þeirra sem deila forsjá. Eins og staðan er í dag hafa foreldrar sem ekki hafa sama lögheimili og barn sitt takmarkaðri réttindi og börn sem búa á tveimur heimilum njóta ekki réttinda til fulls og til jafns við annað fatlað fólk né aðra í samfélaginu þrátt fyrir að foreldrar hafi samið um skipta búsetu. Réttindi fatlaðra barna ættu að vera þau sömu og ekki miðað við sambandsstöðu foreldra þeirra. Ef framkvæmdaáætlunin á að leiða til lögfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þarf að minnast á þennan hóp og setja sérstakar greinar um rétt barnsins til að alast upp með fjölskyldu sinni og njóta þjónustu í nærumhverfi.

Fyrsti minni hluti ítrekar að ýmis atriði í þessari framkvæmdaáætlun og breytingartillögum meiri hlutans eru til bóta en telur að ríkisstjórnin hafi á margan hátt brugðist fötluðu fólki með hliðsjón af því að Alþingi samþykkti þingsályktun í júní 2019 um að ríkisstjórnin myndi leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og aðlögun íslenskra laga að samningnum með það að markmiði að samningurinn yrði lögfestur eigi síðar en í desember 2020. 1. minni hluti harmar þessar miklu tafir á lögfestingu samningsins og vill jafnframt benda á að íslenska ríkið hefur hvorki fullgilt né lögfest valfrjálsa bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningum. Í þingsályktun nr. 61/145, sem var samþykkt á Alþingi 20. september 2016, kemur ekki einungis fram að Alþingi álykti að ríkisstjórnin fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks heldur einnig að valkvæði viðaukinn við samninginn skuli fullgiltur fyrir árslok 2017. Það er því um yfir sex ára töf að ræða en fullgilding valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks mun stuðla að aukinni vernd þeirra réttinda sem koma fram í samningnum með því að koma á fót sambærilegri kæruleið við þá sem lengi hefur verið til staðar vegna þeirra réttinda sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Mikilvæg réttindi fatlaðs fólks verða aukin með fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar eins og kemur fram í aðgerðarlið F.2., en 1. minni hluti leggur þó til að stigið verði skref til fulls til að tryggja þessi réttindi með því að kveðið verði á um lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar í framkvæmdaáætluninni.

Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við lið F.2.

a. 1. mgr. orðist svo:

Verkefnið miði að því að tryggja megininntak valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með því að fullgilda og lögfesta bókunina.

b. Fyrirsögn liðarins verði: Fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Að þessu sögðu vil ég líka taka það fram að við erum hér að ræða þingsályktunartillögu. Því miður verð ég að segja alveg eins og er að eftir meðferð þingsályktunartillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðs fólks og hvernig hún endaði einmitt hjá þeim ráðherra sem fer með málaflokk fatlaðs fólks, og var einhvern veginn útþynnt þannig að það varð ekkert úr henni, þá höfum við í Flokki fólksins litla trú á þingsályktunartillögum. Það má eiginlega segja að með þessari aðgerð sem ráðherra fór þar í, að setja ekki á fót hagsmunafulltrúa aldraðra heldur einhverja símsvörun og einhverja kvörtunarleið, hafi hann gert það að verkum að þingsályktunartillögur verða einhvers konar ruslgagn eða rusl í meðförum þingsins, a.m.k. þær sem við í þingflokki Flokks fólksins höfum fengið samþykktar. Það er sorglegt og ég segi fyrir mitt leyti að ég veit ekki hvernig hann mun fara með þessa þingsályktunartillögu.

Það sem er kannski merkilegast við þessa áætlun — þetta er, liggur við, næstum bók, hér eru eins og ég kom inn á 57 leiðir — og er líka furðulegt þegar maður skoðar þetta, er að stór hluti af þessu verður líklega ekki á borði þessarar ríkisstjórnar heldur á borði ríkisstjórnar eftir næstu kosningar. Það segir okkur líka að einhverra hluta vegna hefur þessi ríkisstjórn dregið lappirnar. Ef þeir hefðu virkilega viljað lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna og virkilega viljað koma til móts við fatlað fólk þá hefðu þeir átt að vera löngu búnir að því og tryggja það að allt þetta sem við erum að tala um hér værum við hreinlega að samþykkja í dag og gera að lögum.

En það sem er líka furðulegt í þessu er á bls. 35 í þessari þingsályktunartillögu, um C.2., endurskoðun og einföldun greiðslukerfis almannatrygginga. Það eina eiginlega sem ríkisstjórnin er að hæla sér af er að hún hækkaði frítekjumark atvinnutekna úr 110.000 kr. í 200.000 kr. Svo er líka þessi sláandi þögn þeirra um að það á ekki að taka á þeirri kjaragliðnun örorkulífeyrisþega sem hefur átt sér stað undanfarinn áratug eða lengur. Ég er sannfærður um það að þar eiga öryrkjar og fatlað fólk inni vel á annað hundrað þúsund krónur á mánuði.

Síðan er annað í þessu, það er ekki heldur tekið á því hvernig í ósköpunum þetta verður allt fjármagnað. Það hefur eiginlega verið sett á bið. Sveitarfélögin eru ekki par hrifin af því, eins og hefur komið fram þá mun þetta lenda að stórum hluta á sveitarfélögunum. Tökum bara sem dæmi að nú stendur til að endurskoða almannatryggingakerfið og þar á að bæta inn einhverjum 18 milljörðum, sem er afskaplega lítið ef við setjum það í samhengi við það hvað ríkisstjórnin hefur sparað sér gífurlega fjármuni með því að breyta ekki þessu kerfi í nærri sjö ár. Miðað við það eru það smáaurar sem eiga að fara þarna inn. Einhverra hluta vegna er eins og þessi ríkisstjórn hafi ekki metnað til þess að reikna út hvað það er sem fatlað fólk þarf raunverulega á að halda til framfærslu. Í því samhengi er eitt það merkilegasta og furðulegasta í þessu máli, sem ég hef aldrei getað skilið og mun sennilega aldrei ná að skilja, hvers vegna í ósköpunum við erum með þannig kerfi að allur almenningur, ef hann ávaxtar sitt fé í banka, borgar fjármagnstekjuskatt en leið og fólk er fatlað eða gamalt og fer inn í almannatryggingakerfið þá gilda allt aðrar reglur. Þá kemur allt í einu upp eitthvert frítekjumark og ef þú ert búinn með frítekjumarkið þá færðu ekki bara 22% skatt heldur er farið í 45% skerðingar. Þetta þýðir á mannamáli að þeir sem eru í þessu kerfi og ætla að reyna að ávaxta fé sitt munu aldrei fá ávöxtun. Þeir munu alltaf tapa. Þeir munu ekki einu sinni ná því að vera á sléttu.

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum láta ríkisstjórnarflokkarnir þetta viðgangast? Hvað er það í þeirra málflutningi eða þeirra afstöðu sem segir að þessi hópur eigi að vera í einhverri allt annarri stöðu? Eins og ég sagði hér í störfum þingsins í dag, sem sýnir hversu ótrúlega fáránlegt þetta er: Við erum með fólk hérna sem er kannski með hundruð milljóna eða milljarða í fjármagnstekjur og borgar 22% skatt en á sama tíma erum við með fólk sem er í fátækt, jafnvel sárafátækt, og ef það ætlar að reyna eitthvað þá er ekki bara 35 eða 40% skattur heldur 45% skerðing ofan á það, allt upp í 70–80% skattur, af því að skerðingarnar eru ekkert annað en skattur. Það er verið að taka af þessu fólki sem á þennan rétt. Ég bara spái í það hvernig í ósköpunum það er hægt að fá það út að þeir verst settu eigi að vera í þessari aðstöðu en þeir best settu eigi ekki einu sinni að borga útsvar. Þeir sem eru með fjármagnstekjur borga ekki einu sinni útsvar. Þeir fá alla þjónustu sveitarfélaga án þess að borga útsvar. Ef einhver getur skýrt það út fyrir mér af hverju í ósköpunum þetta er svona og hvernig þetta var fundið upp og hvers vegna þessu er viðhaldið árum og áratugum saman þá myndi ég ráðleggja honum að koma hérna upp í pontu og útskýra það fyrir mér.

Síðan er annað í þessu. Það er sú ótrúlega umræða sem er sorgleg þegar málefni fatlaðs fólks ber á koma. Þá kemur upp þessi kostnaður, að þessi hópur sé kostnaður, kosti svo mikið. Kostnaðurinn var meira að segja orðinn svo mikill að öll framúrkeyrsla sveitarfélaganna var bara fötluðu fólki að kenna, sem er auðvitað alveg kolrangt. Þetta eru réttindi. Það er alveg með ólíkindum að við skulum alltaf vera að draga lappirnar í málefnum þeirra sem þurfa virkilega á hjálp þingsins að halda. En einhverra hluta vegna þá eru þeir ekki í forgangi og hafa ekki verið í forgangi og virðast ekki ætla að vera í forgangi. Ég sé ekki af hverju í ósköpunum þessi mál ná ekki fram að ganga.

Ég spyr mig líka af hverju í ósköpunum sé búið að tefja og tefja, eins og kemur hérna fram, í sex ár að fullgilda valfrjálsu bókunina. Svarið er ósköp einfalt: Ef þeir myndu fullgilda valfrjálsu bókunina væri kæruleiðin opin. Auðvitað á að byrja á því. Auðvitað á að sjá til þess, áður en við byrjum að taka á þessum málefnum fatlaðs fólks, að kæruleiðirnar séu tryggðar þannig að strax frá byrjun geti fatlað fólk varið sig gagnvart ríkisvaldinu. En það er ekki svo gott vegna þess að við höfum einhvern veginn alltaf séð til þess að þeir sem verst hafa það verði út undan og fái bara molana af þjóðarkökunni.

Kjörorð Öryrkjabandalagsins og fatlaðs fólks er: Ekkert um okkur án okkar, en það er sorglegt til þess að vita að það er enn langt frá því að farið sé eftir því. Auðvitað á að spyrja fólk áður en vinnustað þess er splundrað: Viljið þið það? Auðvitað eigum við að spyrja fólk að því á höfuðborgarsvæðinu sem þarf aðstöðu hvort það vilji fara vestur á land eða austur á land. En það er ekki gert. Það er bara farið í hreppaflutninga, fatlað fólk er bara flutt á hjúkrunarheimili úti á landi. Þetta er okkur til háborinnar skammar. Á sama tíma erum við að fjalla um þetta mál. En ég spyr mig: Af hverju í ósköpunum erum við ekki löngu byrjuð að taka á þessum málum og sjá til þess að fatlað fólk fái öll þessi réttindi og að við séum líka að spyrja það: Hvað vilt þú? Það sé ekkert gert sem snertir þau án þeirra. Ég treysti þeim alveg til að vita nákvæmlega hvað þau vilja. Ef einstaklingur vill vera á vernduðum vinnustað þá á hann að fá að vera á vernduðum vinnustað. Ef einstaklingur vill vera á almennum vinnumarkaði þá á hann að fá að vera á almennum vinnumarkaði. Það á ekki að þvinga einn né neinn í hvora áttina sem er. Það á að bera virðingu fyrir fólki og sjá til þess að það fái að ráða sínu lífi sjálft eins og við viljum öll gera. Við myndum ekki láta fara svona með okkur, það er alveg á hreinu.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland erum við með tillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það hefur ekki verið gert. Við höfum dregið lappirnar. Þetta er búið að taka allt of, allt of langan tíma. Ég óttast að þetta muni dragast enn þá lengur. Valfrjálsa bókunin, ég er með breytingartillögu um að hún verði bara samþykkt á sama tíma og þessi framkvæmdaáætlun verður samþykkt. Gerum það. Sýnum það í verki. Tökum á því og sýnum það líka í verki að við viljum að það séu sömu aðstæður hjá börnum sem búa hjá sitthvoru foreldrinu, það séu sömu aðstæður hjá barninu hvort sem það er hjá móður eða föður eða hver það er sem er með umsjón með barninu, að þau hafi nákvæmlega sömu aðstæður til að hugsa um barnið. Það er réttur barnsins og það er okkar að sjá til þess að barnið fái allan þann rétt. Það er nógu erfitt fyrir foreldra að vera annast fatlað barn, það er nógu erfitt að vera í þessu kerfi með fötlun þó að við séum ekki líka með óþarfahindranir.

Ég vona að það verði fljótlega farið áfram með þetta plagg til þess að rífa niður allar hindranir og sjá til þess að fatlað fólk hafi full mannréttindi og fullan rétt á því að stjórna sínu eigin lífi. Og númer eitt, tvö og þrjú: Ekkert um þau án þeirra.