154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og flutning á nefndarálitinu. Mig langaði aðeins að velta því upp — af því að ég hef verið í samskiptum líka við ráðuneytið, bara svo að það sé sagt, og er að spyrja ekki síst vegna breytingartillögunnar sem hér er undir og fleira og ég tók undir það hér áðan varðandi búsetuna og úrræði fyrir börn og annað slíkt — að í C.7, þ.e. um rétt fatlaðs fólks til að njóta fjölskyldulífs, á auðvitað að taka mið af þörfum bæði barna og foreldra til uppeldis barna. Það er spurning hvort við getum sagt að þetta eigi heima þar undir. En eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá heyrir þetta náttúrlega undir nýtt ráðuneyti, þ.e. framkvæmdin á þessari landsáætlun hér. Þar er t.d. talað um að kortlagning á stöðu réttinda barna sem búa á tveimur heimilum heyri undir mennta- og barnamálaráðherra og barnaverndin og farsældin eins og við þekkjum á heima þar. Síðan er það dómsmálaráðuneytið sem er þá með hjúskapar- og barnalögin og það allt saman og svo erum við með innviðaráðuneytið þegar kemur að lögheimilismálum. Þannig að sannarlega þurfa ráðuneytin að vinna saman að úrlausn málanna en ég held að kannski stærsti þátturinn í þessu, sem hv. þingmaður hefur kannski verið að benda á í þessu nefndaráliti, varðandi þetta fjölskyldumynstur, geti að einhverju leyti fallið undir C.7. En sannarlega þarf að ýta við því þannig að ráðuneyti barnamála geri þessa kortlagningu. Ég held að það geti bara verið mjög mikilvægt í þessu samhengi að við köllum eftir því að það verði gert.