154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála henni í því að við erum oft að gera málin ofboðslega flókin með því að hafa þetta svona á milli, við ættum að geta einfaldað þetta. En málið er bara þannig að ef við erum með hjón sem eru með fatlað barn og þau búa á sitthvoru heimilinu þá getur komið upp sú staða að annar aðilinn er með allar græjur sem þarf til þess að annast barnið. Ef um mikla fötlun er að ræða þá þarf oft sérstakan búnað til að bæði flytja barnið og svo eru hjólastólar og ýmislegt sem þarf og það er kannski á öðrum staðnum en ekki hinum og það hamlar hinum aðilanum að fá rétta umgengni við barnið sitt og barninu líka að fá rétta umgengni við viðkomandi. Ég veit af því að það hefur meira að segja skapað hættu fyrir barnið vegna þess að aðstæðurnar eru ekki réttar og þar af leiðandi er verið að reyna að leysa málin en samt ekki þannig að það sé barninu fyrir bestu. Þess vegna er svo ofboðslega mikilvægt að við sjáum til þess að það sé jöfn aðstaða. Þetta á ekki að vera vandamál. Ég geri mér ekki alveg nákvæmlega grein fyrir því í hversu mörgum tilfellum þetta er en ég held að það eigi að vera hægt að leysa þetta mjög einfaldlega. Sjúkratryggingar Íslands eru t.d. með þau tæki og tól sem þarf til og það á auðvitað að vera mjög einfalt fyrir báða foreldra að fá þau í þessum tilfellum. Þetta eru ekki það mörg börn, ekki það mikill kostnaður og það ætti ekki að vera neitt vandamál. Ég held líka að okkur beri eiginlega skylda til að leysa þetta mál barnsins vegna.