154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta velferðarnefndar, sem er ég. Ég vil byrja á að taka fram að ég tek heils hugar undir álit meiri hluta nefndarinnar og styð þær breytingartillögur sem þar eru settar fram. Þá tek ég einnig undir þá tillögu sem 1. minni hluti hefur lagt fram í sínu áliti, tel það alla vega umræðu vert. Hins vegar, þrátt fyrir að ég styðji þetta mál heils hugar og nefndarálit meiri hlutans, þá tel ég að það hefði verið rétt og það hefði verið tækifæri til þess að ganga lengra í þessari framkvæmdaáætlun í fyrirætlunum um að binda enda á nauðung í geðheilbrigðisþjónustu. Fyrir örfáum misserum samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun um að binda enda á nauðung í meðferð geðheilbrigðismála í Evrópu. Byggðist ályktunin á skýrslu sem unnin var fyrir þingið um stöðu þessara mála í Evrópu og nauðsynlegar úrbætur. Í skýrslunni kom m.a. fram að beiting nauðungar og annarra þvingunarúrræða í geðheilbrigðismálum fari vaxandi í Evrópu og að breytingar á löggjöf sem ætlað væri að draga úr slíkri nauðung hefðu ekki tilskilin áhrif í framkvæmd. En það er kannski svolítið það sem er verið að stefna með þessari framkvæmdaáætlun, að draga úr nauðung, sem er auðvitað gott svo langt sem það nær. Orsök þessarar þróunar sem lýst er í skýrslu Evrópuráðsþingsins er rakin til viðhorfa og menningar sem reiði sig á stjórnun og meðferð einstaklinga sem taldir eru hugsanlega hættulegir sjálfum sér eða öðrum og sé vísan til hættu á ofbeldi af hálfu þessara einstaklinga ríkjandi réttlæting fyrir valdbeitingu í geðheilbrigðismálum og það þrátt fyrir að rannsóknir hafi hvorki leitt í ljós sérstök tengsl á milli geðraskana og ofbeldis né, og kannski ekki síður, sýnt fram á gagnsemi valdbeitingar til að koma í veg fyrir að fólk valdi sjálfu sér eða öðrum skaða, hvað þá í lækningaskyni.

Bent hefur verið á að markmið um að lágmarka ofbeldi og mögulega lífsgæðaskerðingu sem leiðir af löglegum þvingunum og valdbeitingu séu sannarlega af hinu góða en að erfitt sé að vinna með þá þversögn að nauðung, þvinganir og ofbeldi fari ekki saman við læknandi meðferð. Ég tel því til bóta að í framkvæmdaáætluninni sé kveðið á um aðgerðir til þess að draga úr beitingu nauðungar og sömuleiðis að miðað sé við þá meginreglu að beiting nauðungar sé ekki heimil. Með undantekningum frá þeirri meginreglu sem lúta að öðru en því sem felst í neyðarrétti sem þegar má finna í lögum tel ég hins vegar lítið gert úr þeirri meginreglu og unnið gegn inntaki hennar.

Fyrir liggur að nauðung er beitt í geðheilbrigðisþjónustu hér á landi, í sumum tilvikum þrátt fyrir að lagaheimildir séu ýmist ófullnægjandi eða hreinlega ekki til staðar. Þá liggur fyrir að eðli, umfang og áhrif þvingaðrar meðferðar á Íslandi eru lítt þekkt og hefur skráningu og eftirliti með þessum aðferðum hér á landi verið verulega ábótavant og er enn, þrátt fyrir ábendingar sem komið hafa fram, m.a. í svokölluðu OPCAT-eftirliti umboðsmanns Alþingis, sem er sérstakt eftirlit með aðstæðum frelsissviptra. Viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra við þessum athugasemdum hafa verið þau að leggja fram frumvarp þar sem lagt var til að heimildir til beitingar nauðungar yrðu lögfestar en lítið hefur hins vegar verið aðhafst til að stöðva ólögmæta nauðung í geðheilbrigðisþjónustu og engar áætlanir fyrirliggjandi um að vinna að því að binda enda á beitingu hennar.

Í skýrslu Evrópuráðsþingsins er farið yfir ýmsar leiðir sem hægt er að fara til þess að koma alfarið í veg fyrir að beita þurfi nauðung gagnvart fólki með geðraskanir. Er í kjölfarið skorað á aðildarríki Evrópuráðsins að stefna að heilbrigðiskerfi algerlega lausu við nauðung og þvinganir. Á meðal þeirra skrefa sem lagt er til að ríkið stígi í þessa átt er að þróa framtíðarsýn um róttæka fækkun tilfella þar sem nauðung er beitt í samstarfi við alla hlutaðeigandi og þá sérstaklega einstaklinga með geðraskanir og þjónustuveitendur. Það er lagt til að ríkin byggi upp áhrifaríka og aðgengilega stuðningsþjónustu fyrir einstaklinga í andlegum erfiðleikum, þar á meðal örugg og stuðningsrík úrræði fyrir fólk til að ræða hugsanir um sjálfsskaða og sjálfsvíg. Fjármagna þarf rannsóknir á úrræðum án þvingunar, forvarnir og snemmtæka greiningu geðraskana og snemmtæk úrræði án þvingunar, sér í lagi fyrir börn og ungt fólk, og áhersla er lögð á, án fordóma.

Berjast þarf gegn staðalímyndum um fólk með geðraskanir og staðalímyndum um ofbeldi og fólk með geðraskanir með vitundarvakningu, með þátttöku allra sem hafa aðkomu að slíkum málum, þar með talið þjónustuveitenda, fjölmiðla, löggæslu og almennings, til viðbótar við fólkið sjálft sem upplifað hefur geðraskanir.

Endurskoða þarf námskrár á öllum námsstigum með það fyrir augum að tryggja að þær séu í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þess má geta að í þeim samningi er tekið fram að ekki megi frelsissvipta fólk eða beita það nauðung vegna veikinda sinna, vegna fötlunar sinnar. Það á við um geðfatlað fólk eins og annað fatlað fólk. Berjast þarf gegn útilokun og útskúfun fólks með geðraskanir með því að tryggja því aðgang að viðeigandi félagslegri þjónustu, húsnæði og atvinnu.

Að lokum er í skýrslunni og ályktuninni lagt til að veita aðstandendum fólks með geðraskanir bæði félagslegan og fjárhagslegan stuðning til að koma til móts við álag og áskoranir sem fylgja úrræðaleysi fyrir fólk með geðraskanir.

Forseti. Allt eru þetta skref sem stíga þarf í þá átt að hætta alfarið að neyða fólk til að þiggja meðferð eða loka það inni vegna geðraskana. Hefði ég því viljað sjá metnaðarfyllri markmið í tillögunni um að binda enda á nauðung í geðheilbrigðismálum en ljóst er að margt þarf að koma til til þess að gera starfsfólki geðheilbrigðisþjónustu fært að sinna sínu hlutverki sem best væri á kosið, allt frá breyttum viðhorfum til nýrrar staðsetningar og umhverfis þjónustunnar.

Að öðru leyti ítreka ég stuðning minn við álit meiri hlutans og legg til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem þar eru lagðar til.