154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara koma hingað upp í lokin og þakka fyrir umræðurnar um leið og ég ætla að vera mjög ósammála hv. þingmanni um að það sé tilgangslaust að fjalla um sýn, ekki bara sýn ríkisstjórnar eða ráðherra heldur að afloknu víðtæku og miklu samtali og samráði við notendur þeirrar þjónustu sem hér er verið að fjalla um. Hér er okkur öllum gert kleift að skyggnast inn í það. Það má vel vera að eitthvað geti farið betur en hér er rætt og nefnt en í öllu falli er þó vert að hafa í huga að það skiptir máli að við vitum hér í þinginu og getum haft áhrif á það sem verið er að gera á hverjum tíma. Það höfum við gert. Við getum haldið áfram að vera ósammála eða sammála um tiltekna nálgun er kemur að fjármunum og öðru slíku en ég vil alla vega árétta að mér finnst ekki rétt að segja þetta, ekki síst bara gagnvart þeim hópi sem hér um ræðir, við eigum að sjá á spilin þegar kemur að því hvað á að gera. Það er jú líka okkar, og það hlýtur hv. þingmaður að vera mér sammála um, að fylgja framkvæmdarvaldinu eftir og sjá til þess að þetta verði gert.

Hér áðan var verið að ræða um málefni fólks sem vinnur á vernduðum vinnustöðum og þá langar mig að segja frá því að það er mat ráðgjafa Vinnumálastofnunar að reynslan hafi sýnt að fólki með skerta starfsgetu líður alla jafna betur á vinnumarkaði ef það fær að taka þátt miðað við sína getu, í starfi sem hæfir því og á vinnustað sem er ekki endilega aðgreindur eða verndaður, með alls konar samstarfsfólki. Reynslan sýnir að fólk valdeflist og er stolt og ánægt með að starfa á slíkum vinnustað. Ekki minna mál er að fólk fær laun samkvæmt almennum kjarasamningum þegar það er komið út á hinn almenna vinnumarkað sem eru oftast talsvert hærri laun heldur en þau sem eru í boði á aðgreindum vinnustöðum. Því stendur líka til boða að fara í starfsmannaferðir, á árshátíðir og annað slíkt sem partur af stórri heild eða lítilli eftir atvikum. Og það er auðvitað mikilvægt að geta valið úr fjölbreyttum leiðum og störfum á margs konar vinnustöðum. Það er mjög víða hægt að gera það. Ráðgjafi Vinnumálastofnunar segir að það sé líka tiltölulega auðvelt að þjálfa og auka hæfni fólks sem er með skerta starfsgetu til fjölbreyttra starfa, auðvitað í samræmi við styrk og áhuga hvers og eins ef það er gert, ekki síst ef það er gert á aðgreindum vinnustöðum.

Varðandi starfsfólkið á Múlalundi þá fer af stað í þessari viku af hálfu Vinnumálastofnunar vinna við að greina hópinn og finna styrkleika og áhugasvið hvers og eins starfsmanns sem þar er. Þar á að miða við einstaklingsmiðaða þjónustu. Það má vel vera að út úr því komi að einhverjir vinir vilji fara saman eitthvert og þá mun verða reynt að vinna með það í allra lengstu lög. Fólk þar er bjartsýnt á að þetta gangi hratt og vel fyrir sig og nú þegar er búið að hafa samband við fyrirtæki sem Vinnumálastofnun hefur lengi verið í samstarfi við, t.d. Innnes, Græna skáta o.fl., og gengið hefur vel að vinna með Vinnumálastofnun og fólkinu sem þarf kannski aukastuðning. Þetta er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna eins og hv. þm. Inga Sæland nefndi hér áðan.

Ég vildi bara árétta þetta í lokin um leið og ég þakka fyrir góða umræðu. Þótt það séu skiptar skoðanir um eitt og annað, eins og gengur og gerist og ekkert óeðlilegt við það, þá held ég að þetta sé afskaplega mikilvægt og gott plagg sem við erum hér að leggja fram samkvæmt lagaskyldu, svo því sé líka haldið til haga. Ég ítreka að allt það fólk sem kom að gerð þessa plaggs skiptir máli, þeirra vinna skiptir máli og ég trúi því að því finnist það líka hafa áhrif — ekkert finnist, það hefur auðvitað áhrif með sinni aðkomu með því að stýra hópunum sem hreinlega bjuggu til þetta plagg sem er afrakstur þeirrar vinnu. Auðvitað skiptir það máli að við sjáum á þennan enda.