154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að halda áfram að vera mjög ósammála hv. þingmanni. Þetta er afrakstur vinnu fólks sem málið fjallar sérstaklega um. Mér finnst það ekki duga að taka allan þennan hóp, vinna ítarlega vinnu þar sem ég veit að var mikil ánægja með hvernig allt fór fram — fólk vann þetta eins og við vitum af heilindum og ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það er virðing í því falin að taka á móti þeirri vinnu hér inni í þingsal. Þetta snýst ekkert bara um að stofna starfshópa og gera þetta og gera hitt eins og hv. þingmaður er hér að segja. Þetta snýst líka um að sýna þessari vinnu virðingu. Ekki gleyma því að þetta er lagaskylda, hv. þingmaður, hvort sem honum finnst lögin vitlaus eða ekki, það má vel vera. En mér finnst þetta ekki bara vera þess eðlis að við höfum ekkert um þetta að segja. Ég ætla því að leyfa mér að halda áfram að vera ósammála nálgun hv. þingmanns í þessu. Ég verð að segja að mér finnst hann tala þetta dálítið niður.