154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki markmið nokkurs manns að brjóta niður fólk, við skulum alveg hafa það á hreinu. Það er auðvitað ekki þannig. Við verðum, eins og ég sagði áðan, (Gripið fram í.) að vera með þetta þannig að annaðhvort fylgjum við samningnum eða ekki. Það er alla vega túlkun þeirra sem um hann hafa verið að fjalla að þetta beri að gera með þessum hætti alveg eins og túlkunin er gagnvart húsnæðismálunum. Við þurfum ekki að vera sammála þessu. Ég er það ekki endilega. Ég hef ekki tök á því að fylgja eftir hverju einasta máli sem er á borðum velferðarnefndar sem eru fjölmörg og af mörgum toga. Ég reyni mitt besta að fylgjast með því sem um er að vera en ég kemst ekki yfir það að vita alla skapaða hluti um allt mögulegt. En ég reyni, ekki síst ef mér er bent á eitthvað, að kynna mér málin til hlítar og þess vegna segi ég það að Vinnumálastofnun er í þessari viku að hefjast handa við að ræða við þessa einstaklinga, finna styrkleika þeirra og áhugasvið til að reyna að finna út úr því hvar myndi henta best að vinna. Ef vinir vilja fara saman þá verður reynt að leysa úr því eftir bestu getu. Það eru allir sem að þessu standa að reyna að gera sitt besta og við verðum auðvitað að vona að það takist vel til. Við getum verið sammála um að okkur finnist að það eigi að vera til einhver slíkur staður fyrir fólk. Ég nefndi hérna Sólheima áðan. Það, miðað við túlkun a.m.k. sumra, samtaka sem hafa um þetta fjallað, fellur ekki beinlínis undir samninginn með þeim hætti sem lagt er upp með. Þau leggja mjög mikla áherslu einmitt á það að setja nánast allt í sama form í staðinn fyrir að hafa þetta val, sem ég er ekki sammála. En ég vona sannarlega að okkur takist vel upp í þessu og hef engar efasemdir í rauninni núna um að það verði ekki vandað vel til verka gagnvart þessum viðkvæma hópi.