154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:34]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og félögum mínum í nefndinni fyrir þessa umræðu sem hefur verið fróðlegt að fylgjast með. Mig langar að nýta tækifærið til að gera það að umtalsefni eftir þessa umræðu að þegar hæstv. velferðarnefnd var með málið til meðferðar þá barst beiðni frá fötluðum einstaklingi um að þingmálið, þ.e. þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, yrði fært yfir á auðskilið mál. Þetta er, virðulegi forseti, mjög skiljanleg og eðlileg beiðni sem á sér mjög skýra stoð í lögum, nánar tiltekið í lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Þar segir í 7. gr., með leyfi forseta:

„Hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem getur um í 1. mgr. 1. gr. er óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.“

Í sama ákvæði er sérstaklega tiltekið að neitun um viðeigandi aðlögun skv. 7. gr. a teljist jafnframt mismunun. Og í 7. gr. a segir, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og opinberir aðilar skulu gera nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi kleift að nýta sér eða fá notið samfélagsins utan vinnumarkaðar til jafns við aðra, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi eða umfram það sem eðlilegt má teljast.“

Hér vil ég kannski bæta því við að ég held að það sé fátt sem sé mikilvægara í þessu samhengi heldur en einmitt stjórnmálaþátttaka, að skilja hvers konar lög og reglur er verið að setja og hvers kyns aðgerðir á að ráðast í í tengslum við málefni fatlaðs fólks.

Beiðnin var tekin til meðferðar af hálfu nefndasviðs og niðurstaðan, eftir því sem ég kemst næst, er að þessi skylda hvíli á félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu fremur en á Alþingi. Það er vikið að þessu í nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun málsins bárust nefndinni ábendingar um að betur færi á því að framkvæmdaáætlun sem þessi væri einnig gefin út í auðlesnara formi í samráðsferlinu og við þinglega meðferð. Með því væri aðgengi betur tryggt að slíku efni þannig að sem flestir hefðu tök á því að taka þátt í samráðsferlinu. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar og hvetur ráðuneytið til þess að horfa til þess í framtíðinni.“

Þetta er gott, svo langt sem það nær. Eftir sem áður er hálfdapurlegt til þess að hugsa að stjórnvöld og Alþingi hafi ekki getað tryggt þessum einstaklingi í þessu tilviki aðkomu að málinu, þ.e. að fá málið á auðskildu formi. Ég held að við verðum að taka höndum saman um að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Það þarf e.t.v. að formfesta betur hvort þessar skyldur hvíli á stjórnvöldum, á ráðuneytinu við undirbúning lagafrumvarpa eða á Alþingi, það skiptir ekki öllu í mínum huga hvort það er. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að þetta er mikilvægur réttur þessa fólks og við stjórnmálamenn, hvort sem það er ráðherra í ráðuneytinu eða þingmenn hér á Alþingi, megum ekki láta þetta koma fyrir aftur að hér sé í raun verið að afgreiða mál er varðar fatlað fólk sem fjöldi fólks — m.a. þessi tiltekni einstaklingur sem óskar sérstaklega eftir því að fá málið á auðskildu máli en er synjað um það. Þetta er það sem ég vildi rétt tæpa á hér.