154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi bara rétt árétta það, af því að hv. þingmaður var ekki hér áðan þegar ég nefndi það, að áætlunin er komin á auðlesið mál. Það er vel að hún sé komin á það núna. Það sem kannski má segja að sé framför í þessu er að stóra örorkufrumvarpið er komið inn á audlesid.is sem ég held að skipti miklu máli. Ég ætla að taka undir með þingmanninum hvað það varðar að það er mikilvægt að þetta gerist á fyrstu stigum og ég myndi segja að það væri á ábyrgð ráðuneyta. Þegar mál fara í samráðsgátt geti öll haft tækifæri til þess að hafa áhrif og þurfi ekki endilega að láta einhverja aðra hagsmunaaðila, eða hverjir það eru, gera hlutina fyrir sig. Það er jú auðvitað svo, eins og við þekkjum, að þótt við tilheyrum einhverjum tilteknum samtökum þá er ekki endilega víst að við séum öll sammála í einu og öllu.

Ég vildi bara árétta þetta af því að ráðuneyti félagsmála tók þetta til sín og þetta er komið núna a.m.k., áætlunin er komin á auðlesið mál og ég held að það skipti miklu máli og öryrkjamálið er komið inn á audlesid.is. Það er líka bragarbót sem hefur verið unnin hratt og vel. Ég vildi bara árétta þetta.