154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. minni hluta (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun. Með tillögunni eru settar fram sex meginstoðir málstefnu íslensks táknmáls sem taki nánar tiltekið til máltöku táknmálsbarna, rannsókna og varðveislu, jákvæðs viðhorfs, fjölgunar umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfis og máltækni. Þá er í II. kafla tillögunnar sett fram málstefna íslensks táknmáls þar sem tilteknar eru ákveðnar áherslur sem varða sérstaklega hverja og eina stoð, auk aðgerðaáætlunar í III. kafla um ýmsar aðgerðir sem falla undir tilteknar meginstoðir málstefnunnar og eru á ábyrgð stjórnvalda að framkvæma.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti. Í kjölfar umfjöllunar um málið vill nefndin árétta sérstaklega að hún fagnar tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun og telur brýnt að hún nái fram að ganga. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni er íslenskt táknmál eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi. Þær aðgerðir sem er lagt til að komi til framkvæmda á gildistíma málstefnunnar eru brýn skref til að ná markmiðum málstefnu íslensks táknmáls og tryggja að lögum um stöðu íslensku og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, sé framfylgt.

Nefndin fjallaði um máltöku táknmálsbarna og áréttar það sem fram kemur í umsögn Félags heyrnarlausra um að markviss málörvun sé lykillinn að færni barna til framtíðar. Í því ljósi sé grundvallaratriði að talað sé við táknmálsbörn á móðurmáli þeirra á öllum skólastigum og þau fái markvissa málörvun á íslensku táknmáli til jafns við börn sem tala íslensku. Táknmálsbörn eigi því rétt á að njóta sömu málörvunar og önnur börn. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og áréttar það sem segir m.a. í greinargerð með tillögunni um að með því að leggja áherslu á máltöku táknmálsbarna er sjónum beint að mikilvægi íslensks táknmáls fyrir framtíð þeirra. Táknmálsbörn eigi rétt á því að fá kennslu á og í íslensku táknmáli á máltökuskeiði og öllum stigum skólagöngu, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Þá fjallaði nefndin um lögverndun starfsheitis táknmálstúlka. Í umsögn Félags heyrnarlausra er einnig bent á að ekkert gæðaeftirlit sé með táknmálstúlkun á Íslandi og ekkert í lögum sem tryggi gæði túlkunar og ákveðna lágmarkskunnáttu, eins og t.d. samræmt próf. Mögulegt sé að loknu B.A.-prófi í táknmálsfræði og táknmálstúlkun að hefja störf sem táknmálstúlkur án þess að hafa fengið nokkra handleiðslu sem slíkur eða standast hæfnispróf þar um. Félagið kallar eftir því að starfsheiti táknmálstúlka verði lögverndað í þeim tilgangi að tryggja gæði og færni starfandi túlka.

Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 26. janúar 2024, er hvað þetta varðar gerð grein fyrir því að lögverndun eða löggilding geti verið með mismunandi hætti og falið í sér mismiklar skorður við því hverjir geti stundað ákveðna atvinnustarfsemi eða hvernig þeir geti kynnt sig til starfa. Þá séu fyrir hendi minna íþyngjandi leiðir til að setja reglur um hverjir stundi tiltekna atvinnustarfsemi eða til að auka yfirsýn yfir hverjir séu starfandi í tiltekinni atvinnugrein, svo sem skráning og vottun.

Nefndin tekur undir það sem fram kemur í umsögn Félags heyrnarlausra um að rétt túlkun skipti sköpum og beinir því til ráðuneytisins að það verði skoðað nánar með hvaða hætti sé best að tryggja færni táknmálstúlka. Nefndin fjallaði að auki um þýðingu máltækni og gervigreindar við gagnasöfnun.

Í umsögn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er bent á að í mörgum liðum þeirra aðgerða sem falla undir meginstoð A um máltöku táknmálsbarna sé vikið að námi og kennslu. Á hinn bóginn sé ekkert getið um þátt máltækni í því sambandi. Í umfjöllun um meginstoð F um máltækni er hins vegar minnst á „gerð námsefnis, leiðir til fjarnáms og fjarkennslu“. Þannig skorti á að vísað sé á milli meginstoðar A og F hvað máltækni varðar.

Í umsögn hugvísindasviðs Háskóla Íslands er bent á að til að efla rannsóknir, skráningu og varðveislu íslensks táknmáls þurfi að koma til aukið fjármagn í þennan málaflokk. Þá sé til athugunar í samstarfi við menntavísindasvið að koma á fót námi í kennslufræði táknmáls. Eigi það að verða að veruleika og taka mið af þeim áherslum sem fram komi í þingsályktunartillögunni þurfi að bæta við stöðugildi á þessum tveimur fræðasviðum skólans.

Fyrir nefndinni var jafnframt fjallað um fjarnám í íslensku táknmáli og þátt máltækni þar að lútandi. Fram kom að þrátt fyrir að máltækni væri enn sem komið er ekki mjög langt á veg komin hvað varðar gerð námsefnis, fjarnáms og fjarkennslu, væri afar mikilvægt að byrja að þróa lausnir á því sviði sem allra fyrst og þá í nánu samstarfi við aðila annars staðar á Norðurlöndum.

Nefndin leggur til breytingar á tillögunni. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar greitt aðgengi að íslensku táknmáli á fyrstu stigum máltöku. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir um efni tillögunnar og fögnuðu því að málstefna um íslenskt táknmál ásamt aðgerðaáætlun væri lögð fram í fyrsta skipti. Nokkur gagnrýni kom þó fram á 1. tölulið aðgerðaáætlunarinnar um aðgerðir sem falla undir meginstoð A varðandi máltöku táknmálsbarna. Þar er mælt fyrir um að reynist barn vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem komi barninu að gagni. Sé ástæða til verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þá sé ábyrgð á aðgerðinni falin Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Í umsögn Félags heyrnarlausra er bent á að ef barn greinist með skerta heyrn, heyrnarleysi eða samþætta sjón- og heyrnarskerðingu eigi það rétt á að læra og nota íslenskt táknmál frá greiningu eða jafnskjótt og máltaka hefst, sbr. 3. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, sem og aðstandendur barnsins.

Í umsögn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er jafnframt gerð athugasemd við aðgerðina og bent á að orðalagið „sé ástæða til“ sé mjög óljóst og feli í sér að aðkoma mál- og menningarsamfélags íslensks táknmáls sé að engu gerð nema sérfræðingar á öðrum fagsviðum telji það nauðsynlegt eða önnur úrræði hafi verið reynd. Samskiptamiðstöðin bendir á að afar mikilvægur tími á næmiskeiði í máltöku táknmálsbarna geti glatast, fái barnið og fjölskylda þess ekki notið táknmálsþjónustu um leið og heyrnarskerðing greinist. Þá skipti það jafnframt máli til þess að táknmálsbörn og fjölskyldur þeirra hafi raunverulegt val um samskiptamál síðar á lífsleiðinni. Stjórnvöld verði því að tryggja að þau fái upplýsingar og ráðgjöf frá sérfræðingum sem starfi með íslenskt táknmál um leið og táknmálsbarn fæðist eða heyrnarskerðing greinist. Heyrandi börn táknmálstalandi foreldra eigi jafnframt sama rétt og heyrnarskert börn en með orðalagi aðgerðarinnar séu þau ekki hluti af þeim hópi sem aðgerðin nái til. Þá sé orðalag aðgerðarinnar í mótsögn við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 61/2011, þar sem kveðið er á um rétt táknmálsbarna til þess að læra íslenskt táknmál jafnskjótt og máltaka hefst eða heyrnarskerðing greinist. Þá gagnrýna umsagnaraðilar jafnframt að ábyrgð á framkvæmd aðgerðarinnar sé aðeins lögð á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Ekki sé tilgreint hvernig og hvar það mat eigi fram að fara, sem felst í orðunum „sé ástæða til“.

Nefndin undirstrikar mikilvægi þess að stjórnvöld og opinberir aðilar, sem hafa aðkomu að málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra og sinna m.a. málefnum barna, upplýsi táknmálsbörn og foreldra þeirra um hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og þá ráðgjöf, fræðslu og þjónustu sem þar er veitt um kennslu í íslensku táknmáli. Má í því samhengi nefna t.d. heilsugæslur, heilbrigðisstofnanir og leik- og grunnskóla. Nefndin tekur jafnframt undir ábendingar umsagnaraðila um að mikilvægt sé að þetta sé gert um leið og heyrnarleysi eða heyrnarskerðing hjá börnum greinist til að gefa þeim kost á að nýta sér íslenskt táknmál til jafns við annan tjáningarmáta allt frá upphafi.

Nefndin leggur því til breytingu þess efnis að stjórnvöld skuli beina táknmálsbörnum og foreldrum þeirra til Samskiptamiðstöðvar jafnskjótt og máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætt sjón- og heyrnarskerðing hefur greinst, enda felst í því réttur til aðgengis að íslensku táknmáli og þar með val um samskiptamál sem verði þar með þáttur í snemmtækri íhlutun.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar samræmt orðalag varðandi hugtakið táknmálsbörn. Í umsögn Félags heyrnarlausra og málnefndar um íslenskt táknmál var gerð athugasemd við að sums staðar sé vísað til „táknmálstalandi barna“ þegar heppilegra sé að gæta að samræmi í notkun hugtaka og nota frekar hugtakið „táknmálsbörn“. Nefndin tekur undir þetta, einkum með hliðsjón af því að í greinargerð kemur fram að hugtakið „táknmálsfólk“ sé notað sem yfirheiti yfir m.a. þá sem líti á íslenskt táknmál sem sitt móðurmál eða fyrsta mál og vísi það bæði til fullorðinna og barna, þ.e. táknmálsbarna.

Nefndin leggur því til að breytingu þess efnis að alls staðar í aðgerðaáætlun verði vísað til táknmálsbarna. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Halldóra Mogensen og Brynhildur Björnsdóttir. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.