154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki að setja út á áætlunina á einn eða neinn hátt. Ég er að setja út á þinglega meðferð áætlunarinnar. Ég er í fjárlaganefnd og ég er alltaf að skoða hvað er verið að gera, hvað það kostar og hver ábatinn er af því. Það er frábært að setja þessa stefnu og hafa þessa áætlun, ég vil bara sjá það skila árangri. Ég vil bara sjá að þegar sagt er að tryggja eigi táknmálstalandi nemendum nám og kennslu við hæfi að við getum tryggt það með þeim fjárheimildum sem liggja þar á bak við. Við erum ekki að samþykkja það í þessari tillögu. Við samþykkjum það í fjármálaáætluninni. Það sem ég er að vekja athygli á hvað varðar þessa stefnu og stefnuna sem var hérna áðan er að stefna stjórnvalda er lögð fram í fjármálaáætlun. Þangað þarf að setja peningana á bak við stefnuna. Þessa stefnu hins vegar og stefnuna hérna áðan er bara hægt að byrja á, sérstaklega ef það kostar ekki neitt. Þá þarf ekki að koma með það í þingið og spyrja hvort það megi tryggja nám og kennslu táknmálstalandi barna. Það á bara að gera það. Ef það kostar eitthvað þarf að koma með það í fjármálaáætlun og fjárlög til þess að fjármagna það. Það er gagnrýni mín, ekki á að það sé til mjög fín stefna. Það er frábært, en ég veit ekki til hvers er verið að eyða tíma þingsins í þá yfirlýsingu án þess í rauninni að við vitum hvaða kostnað við værum að samþykkja þar á bak við.