154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[17:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Alþingi hefur samþykkt lög og það á bara að fara eftir þeim. Það er ekki flóknara en það. Ef það á að tryggja eitthvert eftirlit með framkvæmd laga þá köllum við ráðherra yfirleitt inn á teppið á nefndarfundum. Nema þegar meiri hlutinn segir: Nei, þessi ráðherra má ekki mæta fyrir nefndina. Það gerist mjög oft núorðið, mjög sérstakt. Hv. þingmaður talaði um að þetta væri aðgerðaáætlun frá 2044 til 2027. Við þekkjum öll hvernig samgönguáætlun t.d., sem er alltaf tímasett, fer fyrir ofan garð og neðan, sérstaklega þegar það kemur ný ríkisstjórn með aðrar áherslur allt í einu og það vantar fjárheimildir og klippt aftan af og ég veit ekki hvað og hvað. Ég get alveg tekið undir þessa stefnu, ekkert mál. Það er ekki það sem ég er að gagnrýna hérna. Mér þætti vænt um að hv. þingmenn meiri hlutans væru ekki alltaf að leggja mér orð í munn hvað þetta varðar. Ég er að gagnrýna að það þurfi endilega að koma með þetta inn á þingið. Ég er að gagnrýna að það eru réttindi tryggð í lögum sem ekki er verið að framfylgja og það þurfi ekki þingsályktun til að ýta á eftir því. Það er gert öðruvísi. Það er gert með því að draga ráðherra og stofnanir á teppið og spyrja: Af hverju eruð þið ekki að sinna skyldum ykkar?