154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[17:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og að taka undir það að þessi stefna sé mikilvæg. Ég hef trú á því að við vinnum öll saman að því að koma þessu áfram. Það er nefnilega þannig að ef við myndum lesa alla lagabálka þingsins þá er ýmislegt sem kannski vantar upp á að fylgja þeim eftir. (Gripið fram í.) Það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég, sama hver hefur verið við stjórnvölinn. En það er okkar vinna hér að minna á það og ég er ekki alveg sammála því að þingsályktun sé bara upp á punt. Ég hef fengið samþykkta hérna þingsályktunartillögu sem er verið að vinna eftir og mér finnst það bara frábært. Og ef þessi þingsályktunartillaga kemst ekki í vinnu þá mun ég fylgja því eftir.