154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[18:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða hér um breytingu á búvörulögum er áhugaverð. Ég var að hugsa hérna áðan, af því að við vorum nú á búnaðarþingi í síðustu viku, um eitt og annað sem við mann var sagt þá. En ef við ætluðum öllum að geðjast í landbúnaði og sjávarútvegi þá líklega myndum við aldrei leggja neitt fram hér á Alþingi Íslendinga, hugsa ég. Það gengur yfirleitt og oft á tíðum treglega, hvað á ég að segja, að ná saman sjónarmiðum í svona stórum breytingum, ekki síst þegar um þessa tvo atvinnuvegi er að ræða, hefur mér fundist. Kannski ekki að undra, það er margt ólíkt innan geiranna beggja þannig að það er kannski ekki óeðlilegt að það geti verið snúið.

Það sem við hér fjöllum um í dag er í sjálfu sér í samræmi við landbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar og ráðherrans og mikilvægt að halda því til haga. Með þessu er auðvitað verið, eins og hér hefur komið fram, að reyna að tryggja það að afkoma bænda batni með einhverjum hætti og þetta er kannski liður í því að reyna að laga þá stöðu. Það er mikilvægt að huga að því að staða okkar sé ekki verri heldur en í Evrópusambandinu og þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við. Eins og kemur fram í nefndarálitinu og formaður nefndarinnar fór vel yfir þá á kannski EES-samningurinn ekki við nema að litlu leyti og við getum þess vegna kannski tekið okkur þessa stöðu sem við erum að gera hér í dag með því að marka okkar eigin stefnu vegna þeirra aðstæðna sem við búum við í þessu litla landi. Eins og hér hefur komið fram og er kannski flestum ljóst sem eitthvað vita um landbúnað þá hefur auðvitað verið afskaplega erfið staða í mörg undanfarin ár í þessum iðnaði, þ.e. sláturleyfishafanna, bæði í slátrun og vinnslu. Þegar við fengum málið inn til okkar þá náði það kannski helst yfir hvíta kjötið og við vorum ekki sannfærð um að það væri það sem þyrfti mest á stuðningnum að halda og þess vegna erum við að fara þessa leið. Ég held að þegar upp verður staðið verði greinin ánægð með þetta.

Þetta með tollkvótana hefur verið gagnrýnt talsvert mikið í ljósi þess hve innflutningurinn hefur aukist og, eins og formaður fór hér einmitt ágætlega yfir, hverjum hefði dottið í hug fyrir ekki svo mörgum árum að við værum að flytja inn lambakjöt? Bara eiginlega ekki nokkrum manni, held ég, það var svo fjarstæðukennt. En núna er allt opið, of mikið a.m.k. opið, og það sem er kannski verra í því samhengi öllu saman er að fólk veit ekki alltaf hvaðan varan kemur sem það er að kaupa. Það er kannski alvarlegast í þessu öllu saman, merkingarnar á vörunni. Þar þurfum við að standa okkur betur og hjálpa til við að gera upprunann enn þá sýnilegri. Það var einmitt eitt af því sem kom fram á búnaðarþinginu um daginn. Þessi samkeppni er ávörpuð hérna í nefndarálitinu og þetta kom svo fram þegar spretthópurinn skilaði af sér. Þá var verið að ræða það að styðja við þessa endurskipulagningu og við þekkjum ferilinn, hvernig hann var eftir þá vinnu. En hér erum við samt og vonumst auðvitað til þess að þetta mál nái hér fram að ganga. Þetta hjálpar til, eins og ég sagði, í þessu þó að það leysi ekki allan vanda í þessu öllu saman.

Við höfum rætt hér á þingi erfiða stöðu bænda sökum vaxta og verðbólgu ekki síst, hjá þeim sem hafa verið að fjárfesta og sérstaklega þekkjum við það í kúabúunum, dýr og mikil fjós byggð og þetta er auðvitað erfitt árferði. Ráðherra hefur brugðist við sannarlega og reynt aðeins að hjálpa til. En ég tek undir með þingmanninum sem talaði hér á undan að eitt af því sem við þurfum að huga betur að er þessi fjármögnun til handa landbúnaðinum. Formaður fór ágætlega yfir greinarnar, þ.e. 71. gr. búvörulaga og svo 15. gr. og hvers vegna. Það kom fram á fundi reyndar og í umsögn Samkeppniseftirlitsins sem beinlínis lagðist gegn því að samkeppnislögum yrði breytt, þetta færi frekar í gegnum búvörulögin. Það er það sem við erum að gera og það stóð kannski aldrei til í sjálfu sér að fara í samkeppnislögin heldur frekar að gera þetta í gegnum búvörulögin sjálf. Vonandi verður þetta til þess að þeir aðilar sem undir skilgreininguna falla sjái hag sinn í því að gera þetta, sem leið, eins og hér kom fram áðan, til þess að bændur beri eitthvað örlítið meira úr býtum en gerist í dag og þannig að það þurfi ekki að velta yfir á neytendur þessum viðbótarkostnaði sem gjarnan er þegar varan hækkar til okkar vegna einhverra breytinga.

Varðandi þessar breytingar, eins og kemur fram í nefndarálitinu, þ.e. þær sem afmarka til hverra undanþágan tekur, skiptir líka miklu máli að þessi framleiðendafélög sem hér eru undir, eins og formaður nefndarinnar kom inn á, eru einungis þrjú. Auðvitað getur verið snúið að þau þurfi að meta sig sjálf en það er líka mikið undir þannig að ég sé það ekki fyrir mér að menn vandi sig ekki og fái leiðbeiningar og leiðsögn. Kannski þarf að vera einhvers staðar aðgengi að því, menn fái klárlega leiðbeiningar um ef eitthvað er óljóst í því hvernig á að bera sig að í þessu. Eins og kemur líka fram hér þá á að skilgreina þetta þröngt, þ.e. ekki veita undanþágu frá banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það er í rauninni verið að gera að lágmarki það sem þarf til þess að geta staðið undir þessu.

Hér er líka vísað til þess að í búvörulögum séu engin almenn ákvæði um heimildir framleiðenda eða samtaka þeirra til að sameinast. Það er samt sem áður ákvæði þar sem víkja frá samkeppnislögum til að fylgja eftir markmiðum þeirra og hér er tekið dæmi um fjárframlög ríkisins, verðlagningu einstakra afurða og heimildir fyrir samtök framleiðenda til að setja viðmiðunarverð fyrir nauta- og kindakjöt í viðskiptum við afurðastöðvarnar. Síðan er vitnað til 13. gr. og 71. gr. búvörulaga. Það er líka nefnt að leiddar hafa verið líkur að því að þessar heimildir hafi verið forsenda hagræðingar sem hafi skilað bændum og neytendum ávinningi sem nemi 2–3 milljörðum kr. á ári. Þetta eru miklir peningar.

Sannarlega, eins og formaður fór hér yfir, þá skiptir þetta allt saman máli. Við erum ekki að ganga eins langt og gert var í mjólkinni, sannarlega ekki. En ég held, hvað á ég að segja, að þörfin helgi tilganginn. Þess vegna komumst við að þeirri niðurstöðu að það þurfi að rýmka þetta, afurðastöðvarnar þurfi heimildir til að auka samstarf og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu. Eins og formaðurinn nefndi hér þá þurfa þeir sem eru í viðskiptum við einhvern tiltekinn aðila auðvitað ekki að halda því áfram frekar en þeir vilja.

Það er ágætt að líta til þess að hér er vel reifaður samanburður við þau lönd sem við berum okkur helst saman við og Evrópusambandið sérstaklega af því að það var nefnt hér áðan og hagsmunir bænda í Evrópusambandinu. Þeir eru búnir að vera að mótmæla talsvert, ekki alveg sáttir, þannig að það er ekki allt gott í ESB, það er heldur ekki allt vont, langt í frá. En ég held að með þessu séum við í rauninni ekkert verr sett, ef þetta nær fram að ganga, heldur en bændur innan Evrópusambandsins sem er vel vegna þess að það er jú það sem sumir hafa talað fyrir talsvert mikið, að þetta þurfi að vera svipað, þar hafi bændur það almennt svo gott og dreifbýlisstuðningurinn sé góður og margt í þá veru. Ég held að við eigum að geta gert hér, og erum auðvitað að gera í gegnum búvörusamninga og fleira, talsvert mikið af því sem verið er að gera í Evrópusambandinu. Það er ítarlegur kafli hérna þar sem farið er yfir þetta og það er, held ég, fróðlegt fyrir þau sem hafa áhuga á landbúnaðarmálum og því sem þeim viðkemur, ekki síst samanburði við önnur lönd, að lesa þetta yfir.

Það er áhugavert að Evrópudómstóllinn hefur kveðið á um að markmið landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins gangi framar markmiðum samkeppnisreglna sáttmála ESB ef þær skarast. Mér finnst mikilvægt inn í umræðuna að taka þetta fram af því að hér finnst mér samkeppnislögin eiginlega alltaf ganga framar, eiginlega alveg sama hvað, þegar um eitthvað svona er að ræða. Eins og reifað hefur verið hafa ýmsir lent í háum sektum þótt manni finnist það nú stundum hafa átt fullan rétt á sér, enda virðist það vera þannig að samkeppnislögin standa mjög ofarlega gagnvart öðrum lögum.

Hér er fjallað um muninn á gildissviði EES-samningsins er varðar landbúnaðar- og fiskafurðir og sáttmála ESB og þá er verið að tala líka um að tilteknar vörur, meginhluti landbúnaðarafurðanna, voru undanskildar gildissviði EES-samningsins þar sem samningsaðilar vildu hver fyrir sig frelsi til að ákveða þær reglur sem ættu að gilda um þessar vörur óháð almennum reglum EES-samningsins. Þetta er eitt af því sem maður þekkir þegar maður hefur verið að vinna í EFTA- og EES-nefndinni, þetta er eiginlega alltaf þegar kemur að umfjöllun um landbúnað, alveg sama í hvaða ríki sem þar eru undir, ásteytingarsteinninn. Það vilja einhvern veginn allir halda sínu þar og ekki leyfa öðrum að krukka í það. Þess vegna ná í rauninni ákvæði samningsins að litlu leyti til framleiðslukerfisins hér á landi í landbúnaði og þess vegna, eins og ég sagði áðan, höfum við talsvert svigrúm til að gera næstum því hvað sem við viljum gera hér.

Það er fleira hér. Hér eru tekin dæmi um Svíþjóð og Finnland þar sem farið er aðeins yfir hvað það er sem ýmist fellur eða fellur ekki undir og hvers konar undanþágur er um að ræða. Það er líka áhugavert fyrir þau sem kannski ekki þekkja til. Það er alveg rétt að þetta er flókið mál en þetta er samt ágætlega rakið hér á fínu máli þannig að þau sem hafa áhuga geta skilið þetta betur, þennan samanburð líka. Það er því miður oft neikvæð umræða, finnst mér, alla vega gagnvart bændum, vöruverði og tollamálum og öðru slíku og fólk vill hafa aðgang að öllu og allt það. Hérna finnst mér vera vel yfir þetta farið. Hver þjóð er að gera þetta svolítið eftir sínu höfði og heldur vel utan um þetta.

Í Noregi er þetta gert svipað og hjá okkur, markmiðin með landbúnaðarstefnunni eru svipuð. Eftirlitið er hins vegar í því falið að ná jafnvægi, eins og hér segir, á innanlandsmarkaði, verðstýra á grundvelli landbúnaðarsamninga, það er sérstakt sölu- og markaðsráð sem fer með framkvæmd þessara laga og samvinnufélög bænda eru ábyrg fyrir jafnvægi á markaði innan hvers geira. Þetta er áhugavert að hafa í huga þegar fólk er að ræða hér um þessi mál.

Virðulegi forseti. Það er svo sem margt hér í þessu máli og formaður fór ágætlega yfir breytingartillögurnar sem skipta máli hér. Við erum að ná til kannski þeirra aðila sem við vildum ná til, ekki bara þeirra sem frumvarpið lagði af stað með. Það er mikilvægt, held ég. En það er líka mjög margt sem þarf að breytast. Við erum dálítið að plástra oft kerfin okkar og við höfum líka verið að plástra þau í gegnum búvörusamninga. Ég held að fram undan sé talsvert mikil vinna sem felst í því að endurskoða, nýta tímann fram að endurskoðun næstu búvörusamninga og breyta dálítið í takt við tíðarandann, bæði auðvitað með hagræðingu sem fæst með þessu t.d. en líka gagnvart loftslagsmálum og framleiðsluaðferðum. Það er mjög margt undir sem þarf að gera en þetta mál hjálpar til. Við ætlum að prófa þetta í ein fimm ár og þá á að fara yfir þessa undanþágureglu, 71. gr., og meta áhrifin. Ég held að það sé vel, það er alltaf vel þegar við erum að gera stærri breytingar að við endurskoðum þær eftir einhvern tíma, þegar breytingar eru komnar fram og það er sýnilegt hvers konar áhrif þær eru að hafa.

Ég trúi því að við náum að skila þessu máli í hús. Það var í sjálfu sér ekki mikil andstaða innan nefndarinnar eins og hér hefur komið fram en það eru kannski eðli máls samkvæmt efasemdir um hversu vel þessi aðferð nær utan um það sem henni er ætlað að gera. En við í meiri hlutanum erum alla vega sannfærð um það að þetta hjálpi til.