154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[18:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessu meirihlutaáliti og þeim breytingum sem hér hafa orðið á þessu frumvarpi, sem var ágætt þegar það var lagt fram, en þessar breytingar sem hér hafa verið reifaðar eru til bóta. Þessar breytingar hafa verið í góðri vinnu undir forystu hv. formanns atvinnuveganefndar, Þórarins Inga Péturssonar, og þær breytingar sem lagðar eru hér fram við frumvarp hæstv. matvælaráðherra. Vinna nefndarinnar gekk út á að tryggja með löggjöf að innlendir framleiðendur í landbúnaði hafi ekki minna svigrúm til hagræðingar en í nágrannaríkjum Íslands. Það er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu að síður í vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðastöðvar í kjötiðnaði geta mjög takmarkað sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér oft í háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Útgangspunkturinn verður alltaf að vera neytendur, matvælaöryggi, íslensk matvælaframleiðsla, byggðamál og fæðuöryggi. Hér sameinast þetta í þessum breytingum.

Það var árið 2004 sem starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins var gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðastöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést m.a. af því að heildarþáttaframleiðni í greininni óx á tímabilinu 2000–2018 um 2,2% á ári. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum var slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum telur milljarða. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda. Því er það alveg kýrskýrt að hagsmunir bænda og neytenda tala sama tungumálið og stjórnvöld verða að hlýða kalli.

Innlend framleiðsla á það skilið að við stöndum vörð um hana og er okkur neytendum til hagsbóta með ódýrari framleiðslu. Samvinna sem leiðir af sér aukna vöruþróun og hagræðingu, þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar.

Ég held að það sé alveg komið að þeim tímamótum að við þurfum nýsköpun í framleiðslu eða á markaði íslensks lambakjöts t.d., því að mér finnst ég einhvern veginn vera komin mjög stutt frá því að vera að fara út í búð og kaupa kjöt í hvítum grisjupoka með þykkum sneiðum og kannski ekki það sem ég get — mér finnst við ekki vera komin svo langt frá því. Ég vil sjá ávinning af þessu skila sér m.a. í fjölbreyttara úrvali og betri gæðum til neytenda. Samvinna sem leiðir af sér aukna vöruþróun og hagræðingu, þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar og bændur eru neytendur.

Ég ætla ekki að fara með það sem stendur í þessu nefndaráliti frekar. Það hefur hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson birt okkur í ræðu sinni auk þeirra þingmanna sem hér hafa talað. En ég hlakka virkilega til þess eftir fjögur ár að hlusta á samantekt ráðherra sem á að skila skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynslu af framkvæmd undanþágu þessarar, 71. gr. a, þar sem metin verða áhrif hennar með hliðsjón af markmiðsákvæðum laganna. Meta á sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hafi verið. Já, ég hlakka til að lesa skýrsluna því að ég held að hún verði nokkuð jákvæð.

Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi í landinu þótt ekki væri nema vegna legu landsins. Farsælasta leiðin til að framleiða næg matvæli innan lands svo við verðum að mestu leyti sjálfum okkur nóg um matvæli — við verðum það aldrei, ekki í fjölbreytni í matvælum alla vega, en alla vega getum við farið í þá átt. Innlend matvælaframleiðsla á að geta fullnægt frumþörfum okkar þótt hún muni seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem við viljum búa við hér á landi. Engu að síður er ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Þá vil ég kannski minnast á nýútkomna skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra stóð að og okkar frábæri og ágæti sóttvarnalæknir stóð fyrir og talaði um mikilvægi þess að við þyrftum að huga að sýklaónæmi sem herjar á erlendis og við þurfum að tryggja það að við séum ekki að kalla inn á þennan markað slíka vöru þó að við getum svo sem alveg náð í hana á ferðum okkar erlendis.

Virðulegi forseti. Framsókn hefur ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, að það þurfi að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Við viljum geta boðið upp á hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður á sama tíma og við sköpum störf fyrir fólkið í landinu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu á Íslandi. Þetta fólk borgar hér skatta og skyldur og fyrirtækin sem stunda sína framleiðslu. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.

Ég segi því að lokum: Til hamingju Ísland með þetta nefndarálit.