154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[18:29]
Horfa

Kristinn Rúnar Tryggvason (F):

Virðulegi forseti. Það er bara mjög ánægjulegt að koma hér í þingið og fá tækifæri til að fjalla um þetta mál. Þetta er náttúrlega löngu tímabært og ég held að þetta skipti miklu máli, ekki bara fyrir bændur heldur í sjálfu sér þjóðina alla því að þetta tikkar í svo mörg box, ef svo má segja. Bara matvælaöryggi sem margir tala um á þessum tímum, við þurfum alveg virkilega að hafa það í huga. Við búum ekki við matvælaöryggi ef meðalaldur bænda fer yfir 70 ár. Hann er nú ekki kominn þangað en hann er allt of hár. Það er hægt að fara með mörg dæmi um það en í minni sveit er þróunin sú að á 40 árum hefur búum fækkað úr 36 í 6 og meðalaldur bænda í þeirri sveit er um 60 ár.

Þetta frumvarp fjallar um samkeppni og maður veltir því fyrir sér að það þyrfti að fjalla um samkeppni í stærra samhengi. Ef við veltum því fyrir okkur hvar hagnaðurinn verður til af mat frá haga í maga; hann verður ekki til hjá bændum, hann verður ekki til hjá afurðastöðvunum, sem allar berjast í bökkum nema þær sem eru í skyldri starfsemi sem heitir verslun en þar verður mikill hagnaður til á þessari leið frá haga í maga. Þegar það kemur neikvæð umsögn frá Félagi atvinnurekenda varðandi þetta frumvarp þá held ég að það sé jákvætt.

Við búum við fleiri varnir fyrir íslenskan landbúnað, þar með talið tolla. Nú sjáum við að síðasta vígið er fallið en það er hægt að kaupa nýsjálenskt lambakjöt í neytendapakkningum á Íslandi. Það er eiginlega þyngra en tárum taki að átta sig á því að staðan sé sú. Það er ákveðinn tvískinnungur í gangi í því samfélagi sem skrifar undir kjarasamninga þar sem verið er að verja störf og laun fólksins í landinu, sem að sjálfsögðu á að gera og ég er hlynntur öllum þeim samningum, en þegar sama fólk vill svo geta farið út í búð og keypt vörur, matvæli sem eru flutt inn, og hefur ekki hugmynd um á hvaða launum fólkið er sem vinnur við það, annað en að það veit að það eru afar lág laun þá er það tvískinnungur. Fólk á hálaunasvæðum verður að skilja að það þarf að borga meira fyrir nauðsynjar og við eigum bara að vera stolt af því að standa vörð um það sem framleitt er í okkar landi. Þetta frumvarp er, held ég, mjög vel til þess fallið og ég vona að það muni ná fram að ganga.

Til að setja þetta allt aðeins í samhengi þá sagði mér glöggur bóndi norður í Reykjahverfi í vetur að þegar hann var að byrja að búa fyrir rúmum 50 árum þá fékk hann meira fyrir innlagt lambakjöt í sláturhúsinu, fyrir kílóið, en hann hafði fyrir vinnustundina inni í sláturhúsi, meira fyrir eitt kíló af lambakjöti heldur en klukkustundarvinnu. Í dag er það sirka þannig að við fáum 890 kr. fyrir kílóið en það vinnur enginn í sláturhúsi fyrir minna en nærri 3.000 kr. á tímann. Svona hefur þetta þróast. Eins og ég segi, ég fagna þessu frumvarpi og vona að það nái fram að ganga.