154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[18:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir góða framsögu á þessu nefndaráliti. Mér skilst að það séu fleiri bændur á þingi þessa vikuna heldur en venjulega. Það hefur verið mjög fræðandi að hafa bændur hér á þingi til að tala við og heyra þeirra sýn á það hvernig er að vera í matvælaframleiðslu og vera bóndi nú til dags. Ég hef oft sagt frá því að þegar ég var ungur drengur og var í sveit öll sumur ætlaði ég að verða bóndi þegar ég yrði stór. Ég sé að það hefði greinilega ekki verið arðbærasti valkosturinn í atvinnu miðað við það hvernig ástandið er núna.

Það er erfitt og getur verið hættulegt þegar samkeppnislög eru tekin úr gildi. Það er ákveðin ástæða fyrir því að þau eru til staðar, til að tryggja að hlutirnir séu að fara í rétta átt. Við megum hins vegar ekki gleyma því að við erum ansi lítið land og það hefur líka sýnt sig að það getur haft stórvægileg áhrif þegar samkeppnin er ekki til staðar. Ég verð að segja að mér finnst nefndin hafa unnið góða vinnu, og þá sérstaklega framsögumaður nefndarinnar, í því að reyna að finna einhvern gullinn meðalveg milli þess að vera með algjöra samkeppni og að vera með einhverja leyfða samkeppni. Það er alltaf erfitt að finna þennan gullna meðalveg og í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er einmitt lagt til að eftir fjögur ár sé það athugað hvort þessi gullni meðalvegur hafi verið gullinn eða kannski bara blý, eins og einhverjir vildu kalla húðunina frá Evrópusambandinu. Við þurfum líka að sjá hvort við höfum gengið eftir þessum meðalvegi eða hvort einhver göt voru í hugmyndafræðinni sem orsökuðu það að ekki náðist að bæta hag bænda. Þá á ég sérstaklega við að það þarf að fara ótrúlega vel með það og fylgjast vel með því að það séu bændur og neytendur sem njóti góðs af þessu en ekki fyrirtækin, sem eru í dag að mínu mati að taka allt of mikið, allt of mikinn hlut af þessari köku.

Ég hefði viljað sjá okkur gera eitthvað til að gera bændum frekar kleift að selja beint. Ég held að enn þá séu tækifæri þar og við þurfum bara að finna leið fram hjá því rugli sem er í gangi enn þann dag í dag um þær allt of miklu kröfur um hvernig slátrun og annað fer fram. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum að það er líka hægt að finna gullinn meðalveg á því sviði. Við þurfum bara að halda áfram að berjast fyrir því vegna þess að ég held að hagur bænda yrði mestur ef við sem neytendur gætum farið að kaupa beint, án heilmargra milliliða sem hirða allan ágóðann, vegna þess að 890 kr. á kílóið er ekki það sem við erum að borga fyrir kjötið úti í búð heldur margfalt það. Milliliðir eru að taka hitt og ættu ekki að vera að gera það í dag.

Líkt og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson þá er ég ekki með á þessu nefndaráliti en ég vona hins vegar að þetta sé góð tilraun og mun því alls ekki standa í vegi fyrir henni í þeirri þinglegu meðferð sem eftir er heldur frekar tryggja að hún komist áfram. Ég vona að við sjáum hana ná þeim ábata sem ég veit að var lögð mikil vinna í að reyna að komast að. Það væri óskandi að í nefndarvinnu væri almennt reynt að leitast við að ganga jafn langt eins og hér er gert í að taka á þeim athugasemdum sem koma. Mér finnst allt of mikið um það í mörgum málum að bent er á þetta og hitt og svo kemur framhaldið aldrei um það hvað var gert til að takast á við þessa hluti sem var bent á. En hér var gengið mjög langt og þetta er mjög ítarlegt og gott nefndarálit. Það er von mín að það verði bæði bændum og neytendum í hag. Ég vona að óháð því hvar við sem höfum unnið að þessu saman verðum eftir fjögur ár, þegar ráðherra á að gefa skýrslu, að nefndin geti hist og borðað gott lambakjöt saman og rætt um það hver afleiðingin var af þessu. Ég veit að við munum þá, ef eitthvað gekk illa, tala opinskátt um það. Ef eitthvað gekk vel munum við hrósa þeim sem unnu þessa vinnu.