154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka nefndarmönnum í hv. atvinnuveganefnd og nefndarriturum og sérfræðingum á nefndasviði fyrir sína góðu vinnu og mjög gott samstarf varðandi þetta mál. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir mjög góðar umræður sem hafa átt sér stað hér í dag. Það vill nú þannig til að í þau skipti sem við förum í landbúnaðargírinn hér á hinu háa Alþingi þá skapast yfirleitt alltaf áhugaverðar og skemmtilegar umræður. Það er svolítið takturinn sem hefur verið sleginn hér upp á síðkastið þegar við leyfum okkur að flæða aðeins og sjá. Stundum er sagt: Það er ekki alveg nóg að tala. Það er alveg rétt og nú getum við líka sagt hér á hinu háa Alþingi og gengið stolt frá því, nefndarmenn í atvinnuveganefnd, að við lögðum þó eitthvað af mörkum. Við erum að leggja af mörkum til að reyna að skapa betri starfsskilyrði fyrir landbúnaðinn hér á landi.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkra punkta hér í lokin sem snúa t.d. að arðseminni í greininni eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á. Það er alveg rétt. Það vill þannig til að sennilega er hamingjan oft við völd sömuleiðis í sveitarómantíkinni en menn lifa ekki á henni einni saman. En það er nú einu sinni þannig að það ber að taka hattinn ofan fyrir þeim sem eru af lífi og sál í því verkefni að reyna að framleiða matvæli á hverjum degi, hverjir sem þeir eru, því að það er sennilega eitt vanmetnasta starf sem menn sinna. Neytendur átta sig ekki á því, því miður, hversu mikilvægt það er að geta gengið að því vísu að fara út í búð og þú ert með ferska ómengaða afurð sem þú neytir síðan með þinni fjölskyldu. Það er ekki sjálfgefið. Og það er heldur ekki sjálfgefið að rík þjóð eins og við Íslendingar eyði bara litlum hluta af sínum ráðstöfunartekjum til matvælakaupa. Horfum hér austur og suður yfir Atlantsála þar sem sennilega 80–90% af innkomu fólks í fátækari ríkjum fer í það að kaupa sér í matinn. Hvað ætli við séum með hérna, 15% eða eitthvað svoleiðis, ef það nær því? Ég er nefnilega að reyna að setja þetta í samhengi við það að þegar við gerum kröfu til þess að við getum gengið að matvælum sem uppfylla okkar háu kröfur þá verðum við líka að gefa framleiðendum matvæla ákveðnar heimildir til að geta brauðfætt sjálfa sig og haldið áfram að framleiða þessa frábæru matvöru.

Sömuleiðis vil ég aðeins koma inn á það að við erum að tala um ákveðna hagræðingu sem kemur til með að eiga sér stað þegar þessi lög ná fram að ganga sem ég vona að þau geri. Þá getum við skipt hagræðingunni í þrjá hluta. Bændur eru með svona 40% af hagræðingunni, neytendur 40% og fyrirtækið sjálft er með svona 20%. Það ber að hafa í huga að þau fyrirtæki sem við erum að tala um í þessu samhengi eru mörg hver komin verulega til ára sinna. Það hefur varla verið byggt nýtt sláturhús eða kjötvinnsla í áratugi.

Og af því að hv. þm. Kristinn Rúnar Tryggvason kom hér upp áðan og það vill nú þannig til að hér í salnum eru þrír bændur sem allir tilheyra sama flokknum úr sama kjördæminu, einhverra hluta vegna og ánægjulegt að svo sé á þessum tíma (Menntmrh.: Einn bóndasonur.) — og síðan er náttúrlega kominn hér bóndasonurinn úr Borgarfirðinum. Við norðanmenn erum svo sem yfirleitt ekki að ræða þá hérna en það verður að gera það hér, að gæta jafnræðis í því. En að eiga umræðu um þessa þætti og að við séum komin loksins alla þessa leið með þetta frumvarp og að flytja hér nefndarálit eftir að hafa gengið í gegnum ýmislegt á þessu sviði og búinn að vera starfandi bóndi í 30 ár og vissulega alþingismaður undanfarin ár samhliða þessu, þá tel ég mig vera nokkuð viss um að það skref sem við erum að taka hér í dag sé rétt skref og mjög mikilvægt skref í þeirri vegferð, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, til þess að byggja undir áframhaldandi uppbyggingu og framþróun innlendrar matvælaframleiðslu.

Virðulegi forseti. Eins og áður sagði: Kærar þakkir til þeirra sem að þessu máli komu. Það eru fjölmargir aðilar, nefndarmenn, nefndarritarar, sérfræðingar á nefndasviði og fleiri og fleiri sem hafa komið að vinnu þessa máls og þó að ég segi sjálfur frá þá tel ég þetta mál alveg gríðarlega vel unnið og mér sýnist það endurspeglast í þeirri umræðu sem við erum búin að eiga hér um málið og þann stuðning sem málið hefur fengið meðal þingflokka sömuleiðis. Við erum búin að heyra hérna ræður frá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og sömuleiðis hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni sem eru fulltrúar í atvinnuveganefnd en eru ekki á nefndaráliti sem er bara vel skiljanlegt. En það endurspeglar líka það, að ég tel, að sú vinna sem meiri hluti nefndarinnar hefur áorkað, ásamt nefndarriturum og öllum þeim sérfræðingum sem komu að þessu máli, gerir það að verkum að umræðan um þessa hluti er á skynsemisnótum og við erum vonandi sigla þessu í höfn fyrir páska. Góðar stundir.