154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu til næstu fimm ára eða fyrir tímabilið 2024–2028. Þingsályktunartillagan er lögð fram í samræmi við stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028 sem Alþingi samþykkti í desember síðastliðnum. Með þingsályktunartillögunni fylgir ítarleg greinargerð þar sem áhersluþættir og nýting framlaga eru tíunduð.

Fyrst vil ég segja að það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að fylgja þessu máli vel eftir og að Alþingi taki skýra stefnu í þessum málaflokki. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu er alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Ef það verður látið viðgangast að ganga fram með þeim hætti er í raun og veru verið að samþykkja slíka framgöngu sem væru skilaboð um mikla breytingu í samhengi við leikreglur alþjóðasamfélagsins, að það sé bara í boði að breyta landamærum og uppræta fullveldi í skjóli vopnavalds. Það fylgjast þess vegna mörg ríki með því hverju fram vindur, bæði þau sem óttast þá heimsmynd og hin mögulega — það er ekki hægt að neita því að það kunna að vera ríki sem einnig hugsa sér gott til glóðarinnar. En eitt er víst, á endanum munu allir tapa ef þessari framgöngu, þessari hegðun, þessari vanvirðingu við alþjóðalög, er ekki mótmælt kröftuglega. Þess vegna er það grundvallaratriði að Ísland taki þátt í samstilltu átaki vestrænna lýðræðisríkja um stuðning við Úkraínu svo lengi sem þörf krefur. Þannig verjum við öryggi og sjálfstæði Úkraínu en tryggjum á sama tíma beina öryggishagsmuni Íslands og það alþjóðakerfi sem fullveldi Íslands byggir á. Það er þess vegna ekki valkostur að sitja hjá. Við erum þrátt fyrir allt ekki langt frá heimsins vígaslóð.

Virðulegi forseti. Úkraínska þjóðin býr við nánast linnulausar árásir Rússa hvern dag. Markmið þessarar stefnu er því að styðja við Úkraínu í orðum og gjörðum, rétt eins og við höfum gert hingað til, en af enn meiri metnaði og með langtímahugsun að leiðarljósi. Við megum ekki verða eftirbátar annarra í þessu efni, sérstaklega ekki okkar nánustu samstarfs- og vinaþjóða á Norðurlöndunum. Þær hafa undanfarið lagt fram skýra stefnumörkun um skuldbindingar í tengslum við framtíðina og stuðning við Úkraínu næstu árin og það eru verulegar skuldbindingar sem þar er um að ræða.

Sú stefna sem ég legg fyrir þingið er heildstæð og hún snýr að fimm meginþáttum. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á að tryggja öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf í Úkraínu. Í öðru lagi að ástunda virka þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og málafylgju sem styður við örugga, sjálfstæða, fullvalda og lýðræðislega Úkraínu í samræmi við vilja íbúa landsins auk friðarferlis forseta Úkraínu og ábyrgðarskyldu Rússlands vegna áhrifa stríðsins. Í þriðja lagi snýr hún að stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu svo að tryggja megi öryggi borgara og mikilvægra innviða. Í fjórða lagi að leggja til mannúðaraðstoð við íbúa Úkraínu og vernd óbreyttra borgara í yfirstandandi átökum. Og að lokum er lögð áhersla á að veita Úkraínu stuðning við að viðhalda grunnþjónustu og efnahag meðan á átökunum stendur og leggja grunninn að endurreisn og uppbyggingu eftir að þeim lýkur.

Í þessum efnum verður einnig tekið mið af þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024–2028, sérstaklega hvað varðar vinnulag og áherslur, og sem fyrr lögð rík áhersla á að sýnt sé fram á árangur af starfi Íslands. Stefnt er að því að heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu á tímabilinu 2024–2028 taki mið af stuðningi annarra Norðurlanda og komi til viðbótar öðrum framlögum til utanríkis-, varnar- og þróunarmála. Til samræmis verði framlög ársins 2024 aukin um 20% miðað við árið 2023 en í tengslum við fjárlög á ári hverju verði tekin ákvörðun um heildarframlög sem verði að lágmarki þau sömu og á yfirstandandi ári.

Virðulegi forseti. Fram til þessa hefur Ísland sannarlega lagt sitt af mörkum. Við höfum tekið virkan þátt í samstöðuaðgerðum lýðræðisþjóða, innleitt þvingunarráðstafanir og við höfum gripið til aðgerða til að takmarka tækifæri Rússlands til áhrifa í alþjóðakerfinu. Þannig höfum við tekið eindregna afstöðu með alþjóðalögum og talað fyrir því að Rússlandi verði gert að axla ábyrgð á heimsvaldastefnu sinni. Með stofnun tjónaskrár fyrir Úkraínu á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík fyrir tæpu ári lagði Ísland með sinni málafylgju enn fremur sitt lóð á vogarskálarnar og ánægjulegt að formennska fyrir tjónaskránni er íslensk, þ.e. að íslenskur einstaklingur hafi valist til forystu.

Framlög til Úkraínu hafa almennt komið til viðbótar við framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og varnarmála, bæði í gegnum fjárlög og fjáraukalög. Miklu skiptir að það verði þannig áfram. Illu heilli er þróun heimsmála með þeim hætti nú um stundir að áfram verður mjög mikil þörf á þróunar- og mannúðaraðstoð. Í baráttunni fyrir alþjóðalögum og alþjóðakerfinu skiptir máli að geta sagt þá sögu að Ísland muni áfram leggja af mörkum til að bæta líf fólks víðar en í Úkraínu, sérstaklega í fátækustu ríkjunum. Við búum sömuleiðis við gjörbreytta heimsmynd í öryggis- og varnarmálum. Líkt og bandalagsþjóðir okkar þurfum við þess vegna að bæta í og leggja meira af mörkum til að tryggja öryggi landsins og samstarfsþjóða. Við höfum stutt myndarlega við efnahag Úkraínu í gegnum sjóði Alþjóðabankans sem vinna að því að samfélagið verði áfram starfhæft þrátt fyrir ófrið. Við höfum stutt starf mannúðar- og þróunarsamvinnustofnana sem veita almenningi í Úkraínu nauðsynlega aðstoð og þjónustu á stríðstímum. Við sendum mat og við höfum stutt við þjálfun heilbrigðisstarfsfólks til að flýta fyrir því að særðir geti fengið t.d. íslenska gerviútlimi. Þá hafa stjórnvöld og fyrirtæki á Íslandi orðið að liði í viðhaldi og í viðgerðum orkuinnviða sem sæta stöðugum árásum Rússa. Síðast en ekki síst höfum við sýnt snerpu og lipurð í stuðningi okkar við varnir Úkraínu. Þar skipti miklu að Ísland skyldi í krafti smæðarinnar geta flutt hergögn strax á fyrstu dögum stríðsins þegar aðrar þjóðir höfðu ekki haft ráðrúm til að skipuleggja sig. Með samhentu átaki sendi þjóðin úkraínskum hermönnum hlýjan fatnað og vetrarbúnað sem margir hljóta að muna vel eftir. Okkar stærsta einstaka framlag var svo færanlega sjúkrahúsið sem Alþingi tók sérstaka ákvörðun um að færa Úkraínu að gjöf á síðasta ári og var afhent í samstarfi við aðrar þjóðir seint á síðasta ári. Í krafti íslenskrar þekkingar höfum við haft frumkvæði að þjálfun úkraínskra sjúkraflutningamanna og sprengjuleitarfólks, auk þess sem við hófum nýlega þjálfun ungra sjóliðsforingjaefna sem ég hafði einmitt tækifæri til að heilsa upp á á Austfjörðum þegar farin var hringferð í kjördæmaviku um landið á dögunum. Það er til merkis um baráttuanda Úkraínumanna að flest þeirra sem við höfum þjálfað eru almennir borgarar á öllum aldri, fólk með ólíkan bakgrunn; bakarar, hárgreiðslufólk, smiðir, verslunarfólk, þetta er fólkið sem nú ver land sitt í röðum úkraínska hersins. En stríð verður ekki unnið með hugrekkið eitt að vopni, eins og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hefur áréttað, síðast heyrði ég þær áherslur á Norðurlandaþingi, heldur verður stríð bara stöðvað með vopnum og alvöruráðstöfunum í varnarmálum.

Stuðningur Íslands við varnir Úkraínu er í sögulegu samhengi fordæmalaus. Aldrei áður höfum við stutt með svo beinum hætti við varnir annars lands og það sem meira er, það hefur ríkt góð almenn sátt um þá aðstoð, bæði vil ég segja meðal flokka hér á þinginu og meðal þjóðarinnar sömuleiðis, leyfi ég mér að segja. Það er enda augljóst að án varna er með öllu óþarft að leggja til fjármuni til enduruppbyggingar og viðhalds úkraínsks samfélags. Fái innrásarliðið sínu framgengt mun Úkraína heyra sögunni til. Aðgerðir okkar og aðstoð okkar byggir þannig á rökréttri samfellu stuðnings til varna og til viðhalds og viðgangs samfélagsins í stríðsástandi. Það mun varða veginn til öflugrar endurreisnar þegar friði er náð.

Virðulegi forseti. Ísland á allt sitt undir því að lögum og reglum á alþjóðavettvangi sé fylgt og fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur og landamæri þjóða varin og vernduð. Að standa með Úkraínu jafngildir því að standa með okkur sjálfum, með okkar bandalagsþjóðum, með öllum þeim sem virða leikreglur lýðræðis og styðja við gildi frelsis, mannréttinda, sjálfsákvörðunarréttar og framfara. Að þessu sögðu legg ég til að í kjölfar þessarar umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.