154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferðina og tek það fram að ég styð þetta mál heils hugar og gott að fá það fram. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi, vegna þess að við erum að ræða stuðning við Úkraínu, að eitt af stærstu málunum á dagskrá núna, sem varðar það hvernig við getum stutt við Úkraínu, er hugmynd um að nota þær eignir sem frystar hafa verið víðs vegar í hinum vestræna heimi og tilheyra rússneska ríkinu, nota þá fjármuni sem þar eru til að greiða fyrir tjón af völdum innrásinni. Þetta hafa alþjóðlegar stofnanir verið að funda um, þar á meðal í Evrópuráðinu þar sem ég á sæti. Þetta hefur víða verið rætt sem tæk leið til að standa að því að viðhalda grunninnviðum Úkraínu á meðan stríðið stendur yfir, tryggja að heilbrigðiskerfið geti haldið áfram að starfa o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt sér þessi rök og hvort hann sé að vinna að því að þetta fái framgang. Þetta er eitthvað sem ríki geta beitt sér fyrir einhliða en ættu líka að beita sér fyrir saman. Við erum kannski ekki með mikið af eignum hér frystar en það er vitað að Evrópusambandið er að velta þessu fyrir sér og er í kannski einhverjum hægagangi með þetta. Ég held að hver lítil þúfa geti vissulega velt einhverju hlassi þannig að ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað þessi mál eitthvað og hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta verði gert. Þetta er, held ég, ein stærsta aðgerðin sem við gætum notað til að hjálpa Úkraínu við að halda samfélaginu gangandi meðan á þessum stríðsrekstri stendur og ég hugsa að þetta muni bíta Rússa hart ef þetta verður gert. Byrjum á því.