154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:24]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að leggja þessa fram þingsályktunartillögu sem ég, rétt eins og kollegi minn, hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, styð heils hugar. Við stöndum í dag frammi fyrir stærstu öryggisógn sem Evrópa hefur séð frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Innrás Rússlands í Úkraínu er ekki einungis árás á fullveldi og sjálfstæði þjóðar heldur einnig á þau grundvallargildi sem við sem alþjóðasamfélag höfum byggt upp, virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og mannréttindum. Sem þjóð sem hefur lagt stund á friðsamlega lausn deilumála og byggt samfélag sitt upp á lýðræðislegum gildum getum við Íslendingar ekki setið hjá. Við verðum að taka afstöðu og sú afstaða hlýtur að vera með því að styðja við Úkraínu í baráttunni fyrir friði.

Sú stefna sem lögð hefur verið fram hér, um stuðning Íslands við Úkraínu fyrir árin 2024–2028, er skýr. Hún leggur áherslu á öflugan stuðning við Úkraínu sem tekur mið af framtíðarsýn og áherslum Úkraínu hverju sinni og er hlutfallslega sambærileg að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum. Markmið okkar ætti ekki einungis að vera að veita bráðnauðsynlegan stuðning í formi mannúðaraðstoðar heldur einnig að einblína á langtímauppbyggingu og endurreisn Úkraínu. Þetta felur í sér að styðja við grunnþjónustu, efnahagslegan stöðugleika og þróun lýðræðis og mannréttinda.

Á sama tíma er mikilvægt að þessi stuðningur við Úkraínu dragi ekki úr þeim fjármunum sem Ísland hefur helgað þróunaraðstoð. Það er grundvallaratriði að viðhalda og jafnvel auka stuðning okkar við fátækustu þjóðir heims, þjóðir sem margar glíma við hungursneyð, fátækt og átök. Við getum ekki og megum ekki snúa baki við þeim á sama tíma og við styðjum við Úkraínu. Þetta krefst aukins fjárframlags frá ríkinu. Það sýnir ekki aðeins samstöðu með Úkraínu í baráttu þeirra fyrir frelsi og lýðræði heldur einnig okkar ósveigjanlega stuðning við grundvallarmannúð og þróun um allan heim.

Í ljósi þessa verður Ísland að vera í forystu þegar kemur að því að finna jafnvægi milli aðstoðar við Úkraínu og þróunaraðstoðar. Við verðum að sýna með góðu fordæmi að það er hægt að standa með þeim sem berjast fyrir frelsi sínu án þess að gleyma þeim sem þurfa á hjálp okkar að halda. Við skulum ekki gleyma að framtíð Úkraínu og velferð fátækustu þjóða heimsins er samofið áskorununum nútímans. Stríðið í Úkraínu og áhrif þess á alþjóðlegt öryggi og efnahagslegan stöðugleika sýnir hversu samtengdur heimurinn er. Sú staðreynd undirstrikar mikilvægi þess að Ísland og önnur ríki bregðist við með samhæfðum og skilvirkum hætti sem tekur tillit til fjölþættra þarfa heimsins. Staðan í Úkraínu í dag minnir okkur á hve mikilvægt er að viðhalda og styrkja grunnstoðir alþjóðlegs samfélags, byggt á reglum, virðingu fyrir fullveldi ríkja og ófrávíkjanlegri virðingu fyrir mannréttindum.

Mig langar að nefna einn hlut úr þessari þingsályktunartillögu sem ég tel að við gætum unnið aðeins áfram með í utanríkismálanefnd. Í 1. lið yfir þá þætti sem taldir eru upp sem það sem Ísland ætti að leggja áherslu á er talað um öflugt tvíhliða samstarf og samskipti við stjórnvöld, þjóðþing, stofnanir, félagasamtök og atvinnulíf. Það er hins vegar þannig að þegar fjallað er um þetta í greinargerðinni er aðallega talað um það að hafa sendiráð í Kænugarði eða sendiskrifstofu. En mig langar að nefna hlut sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi hér, reyndar þegar hann var hæstv. fjármálaráðherra, í tengslum við þróunaraðstoð og það var þetta með að þingmenn þyrftu að öðlast skilning á því hvernig ástandið væri í þeim ríkjum sem við værum að veita þróunaraðstoð. Mig langar þess vegna að byggja á þeirri athugasemd hæstv. ráðherra og undirstrika mikilvægi þess að þegar við byggjum upp þetta tvíhliða samstarf milli Íslands og Úkraínu, sérstaklega á tímum þar sem Úkraína stendur frammi fyrir gífurlegum áskorunum, sé mikilvægt að við séum líka að styrkja tengslin milli Alþingis hér á Íslandi og þjóðþings Úkraínu. Með því að styrkja þau tengsl, eins og nefnt er í tillögunni sjálfri, erum við að skapa grundvöll fyrir dýpri skilningi og samkennd á milli þessara tveggja þjóða. En það er forsenda þess að við getum veitt markvissan stuðning og byggt upp traust á þessum erfiðu tímum. Rétt eins og það hefur gefið góða raun að hv. þingmenn heimsæki þau lönd sem Ísland er með þróunaraðstoð í þá tel ég að það væri kjörið að setja fjármagn, hluti af fjármagni, í það að hv. alþingismenn heimsæki Úkraínu á meðan stríðið geisar. Þetta er ekki aðeins fjárfesting í einhverju diplómatísku samstarfi heldur einnig beinn stuðningur við þingið í Úkraínu og þá sem þar berjast fyrir lýðveldi. Þetta var eitt af því sem sendinefnd vinahóps úkraínska þingsins nefndi við okkur í utanríkismálanefnd en slíkar heimsóknir myndu gefa hv. alþingismönnum tækifæri til þess að sjá með eigin augum hvaða áhrif stríðið hefur á daglegt líf fólks í Úkraínu og áhrif þess á stofnanir samfélagsins og þau mikilvægu verkefni sem þarf að takast á við til að tryggja framtíð landsins. Efling þessara tengsla gegnir því lykilhlutverki í að byggja brýr milli þjóða og efla tvíhliða samstarf. Það sýnir einnig Úkraínu og alþjóðasamfélaginu að Ísland stendur ekki einungis með Úkraínu í orði heldur einnig í verki. Með því að fjárfesta í þessari tegund af samstarfi sendum við skilaboð um að við séum tilbúin að leggja af mörkum það sem þarf til að styðja lýðræði, frið og stöðugleika í Úkraínu. Á þessum erfiðu tímum er það meira en nokkru sinni mikilvægt að halda á lofti gildum lýðræðis, mannréttinda og friðsamlegrar samvinnu. — Slava Ukraini.