154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:32]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna og fyrir að koma fram með þetta góða og tímabæra mál um stefnu um öflugan stuðning Íslands við Úkraínu. Við erum öll, ættum a.m.k. öll að vera vel meðvituð um brýna þörf Úkraínu fyrir stuðning vegna yfirstandandi innrásarstríðs Rússlands. Fyrir þá sem þurfa áréttingu er mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra leggur hér áherslu á að innrás Rússlands í Úkraínu er alvarlegasta ógn við öryggi Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þótt ótrúlegt megi virðast sprettur hér reglulega upp umræða, þótt hún sé ekki hávær, um það af hverju stríðið í Úkraínu, stríðið í Evrópu, sé svo ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnvalda og löggjafans, stríð sem núna er háð í okkar heimsálfu og undir miklum yfirlýsingum um frekari landvinninga í Evrópu, stríð þar sem Rússland hefur þverbrotið alþjóðalög og lætur sér fátt um finnast um viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Nágranna- og vinaþjóðir okkar eru mjög meðvitaðar um alvarlega stöðu í okkar heimsálfu og hversu mjög hún ógnar stöðunni — friðnum — í álfunni. Þær hafa enda brugðist við af miklum krafti, bæði í formi stuðnings og með því að efla eigin varnir. Öflugar varnir eru jú öruggasta tryggingin fyrir friði. Þó má færa sannfærandi rök fyrir því að fáar ef nokkrar þeirra eigi meira undir því en við, herlaus smáþjóðin, að alþjóðakerfi heimsins haldi, að virðing sé borin fyrir alþjóðalögum og afleiðingar séu af því að brjóta þau.

Virðulegi forseti. Það er fjölmargt gott í tillögu hæstv. ráðherra og hann og hans fólk í utanríkisráðuneytinu eiga hrós skilið fyrir vinnuna þar að baki. Ég gæti haft langt mál um hvern og einn áhersluþátt en ég stilli mig og nefni hér nokkur atriði. Ég hef séð það með eigin augum hversu miklu máli öflugt samstarf og samskipti við Úkraínu skipta. Þetta er gríðarlega mikilvæg áhersla til að styðja við sjálfsmynd Úkraínu um sjálfstæði og fullveldi landsins. Ég fagna þessu því sérstaklega og hlakka til að leggja áfram mitt af mörkum þar. Áherslan á friðartillögur forseta Úkraínu er mikilvæg, ekki síst sem innlegg til þeirra sem halda því fram að markmið Úkraínumanna sé ekki friður í Úkraínu, friður innan lögmætra og réttmætra landamæra hennar, friður í Evrópu.

Að lokum langar mig að nefna sérstaklega, virðulegi forseti, efnahagslegan stuðning við Úkraínu, við varnir hennar og endurreisn og mannúðaraðstoð. Þar viljum við ekki vera eftirbátur þeirra landa sem við berum okkur gjarnan saman við, eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur. Það væru stórundarleg skilaboð og ekki í samræmi við þverpólitísk skilaboð okkar hér á Alþingi. Ég verð svo að fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra taki það fram að stuðningurinn komi til viðbótar við önnur framlög til utanríkis-, varnar- og þróunarmála eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson gerði sömuleiðis.

Virðulegi forseti. Aðkoma utanríkismálanefndar að stefnunni er gríðarlega mikilvæg og fagnaðarefni að hæstv. ráðherra leggi áherslu á reglulegt samráð við nefndina.

Að lokum er hérna virkilega góður texti í tillögu hæstv. ráðherra, sem ég tek heils hugar undir, með leyfi forseta; að með „stuðningi við öryggi og sjálfstæði Úkraínu standi stjórnvöld vörð um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.“

Virðulegi forseti. Við verðum að leggja okkar af mörkum þannig að sómi sé að. Undir er baráttan fyrir framtíð Úkraínu, fyrir framtíð Evrópu, fyrir framtíð Íslands. Við megum ekki hlaupast undan merkjum þegar kemur að framlagi okkar til baráttu sem Úkraínumenn heyja fyrir sameiginlegum gildum lýðræðisríkja, fyrir okkar heimsmynd. Andspænis þeim standa ríki sem standa fyrir allt aðra hluti, fyrir allt aðra heimsmynd og þau eiga margt misjafnt sameiginlegt, öxulveldi hins illa, eða með orðum úkraínsks hermanns, sem sendi okkur nýlega skilaboð frá framlínu stríðsins: Styðjum við barátta Úkraínumanna svo okkar börn og okkar landsmenn þurfi ekki að upplifa stríðsástand.

Virðulegi forseti. Ég styð þessa tillögu hæstv. utanríkisráðherra og hlakka til að fá hana til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.