154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:48]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að fagna því sérstaklega að Ísland setji sér langtímastefnu um stuðning við Úkraínu. Alþingi, stjórnvöld og almenningur hefur frá fyrsta degi innrásarstríðs Rússa staðið með íbúum Úkraínu. Lítil vopnlaus eyþjóð með sterka rödd á alþjóðavettvangi hefur sýnt í verki margvíslegan stuðning sem skiptir máli. Úkraínska þjóðin þarf á því að halda að þjóðir heimsins standi ekki bara með henni í dag heldur til lengri framtíðar, að hægt sé að treysta því að sá stuðningur haldi.

Það gerum við hér fyrir okkar leyti með samþykkt tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu árin 2024–2028. Við munum ekki hvika frá þeim stuðningi sem við höfum verið að veita og getum enn bætt í á næstu árum. Það er mikilvægt að halda því til haga að stuðningur við Úkraínu felst ekki einungis í fjárstuðningi heldur líka í öllum öðrum stuðningi sem við getum veitt á alþjóðavettvangi eins og við gerðum í formennskutíð okkar í Evrópuráðinu og sem gestgjafar á leiðtogafundi í Reykjavík síðastliðið vor. Tjónaskráin sem þar var sett á laggirnar, undir forystu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, er mikilvægur grundvöllur þess að sækja rússneska stríðsglæpamenn og vitorðsfólk til saka, ekki bara fyrir glæpi á vígvellinum og gegn stríðsföngum heldur fyrir viðbjóðslegar árásir á saklausan almenning, fangelsanir og pyndingar saklausra borgara, brottnám úkraínskra barna, vistmorð; að hægt verði að safna sönnunargögnum og upplýsingum sem einnig nýtast til að sækja bætur sem m.a. er hægt að greiða með rússneskum fjármunum sem frystir hafa verið erlendis. Hér hefur verið vikið að þessu fyrr í dag, að við getum beitt okkur enn frekar í þeim efnum að svo verði gert og að þjóðir hafi kjark til þess að fylgja því eftir.

Alþingi hefur sýnt stuðning sinn í verki með margvíslegum hætti. Það hefur samþykkt tillögu þar sem Holodomor, hungursneyð af mannavöldum, stjórnarherra þess tíma í Rússlandi, gegn íbúum Úkraínu, var fordæmd, og með fordæmingu ólöglegs brottnáms úkraínskra barna. Vorum við þar fyrst þjóðþinga en nú hafa nokkur lönd fylgt fordæmi okkar eins og Lettland og Eistland og fleiri eru á leiðinni.

Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er með greinargóðum hætti farið yfir í hverju stuðningur Íslands við Úkraínu felst og lýsi ég eindregnum stuðningi við tillöguna. Við munum halda áfram að standa með Úkraínumönnum. Með úkraínsku þjóðinni bærðist draumur um endurheimt sjálfstæði. Á árunum 1917–1921 varð Úkraína í stuttan tíma aftur sjálfstætt ríki og barðist fyrir því að halda sjálfstæði sínu áður en hún var hernumin og innlimuð í Sovétríkin. Á þessum sömu árum vorum við Íslendingar að stíga stærri skref í átt að fullu sjálfstæði sem þjóð. Á fundi sem ég sat með Zelenskí, forseta Úkraínu, fyrir rúmu ári lagði hann einmitt áherslu á mikilvægi fullveldisins, að þau haldi landi sínu, að þau geti búið í lýðræðissamfélagi og tekið sjálf ákvarðanir um sín mál og framtíð. Fullveldið er þeirra fjöregg líkt og það er okkar.

Við sem hér búum eigum auðvelt með að finna samkennd og bera virðingu fyrir þeim gildum sem íbúar Úkraínu berjast fyrir, þeirri framtíð sem þau dreymir um, sjálfstæð, stolt á meðal lýðræðisþjóða, á meðal þjóða sem deila framtíðarsýn.