154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[20:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég bara tek undir að það skiptir miklu máli að við séum skýr með þennan ásetning okkar. Það er ekki bara fyrir framtíðarþing heldur er einfaldlega um mjög mikilvæga þingsályktun að ræða sem varðar það hvaða skilaboð þjóðþingið vill senda, ekki bara hér innan lands heldur víðar, um þann stuðning sem við viljum viðhalda til næstu ára vegna stríðsins í Úkraínu. Ég er alveg opinn með það sem ég kom inn á í ræðu minni áðan, við veltum því talsvert fyrir okkur með hvaða hætti væri rétt að orða þetta, hvort við vildum bara setja krónutölu sem var eitt uppleggið í drögum að þessari þingsályktunartillögu eða hvort við ættum að setja okkur annað viðmið. Og já, við vildum segja það mjög skýrt að við myndum ekki draga úr stuðningi við Úkraínu eftir því sem árin liðu. Þaðan kemur hugmyndin að því að við séum að lágmarki að gera það sem verður gert á yfirstandandi ári og sömuleiðis að við ætlum að bæta um betur frá árinu 2023 og setja 20% ofan á það ár. Þetta eru skilaboð sem einmitt tala inn í það sem hv. þingmaður nefndi hér, að það megi ekki gerast að menn fari að sýna eitthvert hik eða að tíminn fari einhvern veginn að draga úr vilja manna til að viðhalda þessu máli vegna þess að menn verði orðnir þreyttir á því hversu lengi stríðið stendur. Það er að sjálfsögðu ekki í boði. En ég heyri að þessi þáttur þingsályktunartillögunnar mun fá góða meðferð í nefndinni og ég er viss um að við finnum góða lendingu í því.