154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

847. mál
[17:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir andsvarið. Það er augljóslega rétt að það er auðvitað bara hluti af lönduðum afla sem er seldur á fiskmörkuðum og með frumvarpinu er ekkert verið að leggja til breytingar á því. En hins vegar er það þannig að ég tel að frumvarpið — eins og hv. þingmaður segir, gott svo langt sem það nær — sé til mikilla bóta. Við þekkjum dæmi þess, ég og hv. þingmaður, að ágreiningur um fiskverð hefur oft verið þrætuepli og það snýst um að tryggja að það sé rétt skipt. Það kemur því kannski ekki á óvart að þeir aðilar sem sendu inn umsagnir — þar fagna Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambandið þessu frumvarpi. Ef við værum að tala um að allur fiskur fari á markað þá væri það allt annað og stærra mál. En ég held að það sé óumdeilt að þetta er til verulegra bóta til að tryggja sanngirni og réttlæti í þessari verðlagningu.