154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:48]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu og ég held að það sé bara mjög gott að við ræðum þessi mál og förum á dýptina í þau. Ég vil kannski aðeins byrja á veiðistjórninni. Ég hef lagt mikla áherslu á það að styrkja hana og efla og mun kynna núna hugmyndir um nýtt fyrirkomulag, t.d. þegar kemur að rjúpnaveiði þar sem er byggt á, akkúrat eins og hv. þingmaður vísar til, bestu mögulegu vísindalegu upplýsingum. Mér hefur fundist veiðistjórn vera hornreka og vil ekki hafa það þannig og þess vegna hefur verið lögð mikil vinna t.d. í rjúpnaveiðina en sömuleiðis með veiðar á grágæs. Það er verkefni líka þegar kemur að hreindýrum sem vonandi er hægt að komast í.

Hv. þingmaður vísar hér sömuleiðis í landvörslu, hann nefndi að við vorum báðir á þingi landvarða núna fyrir nokkrum dögum og okkur hv. þingmann greinir ekki á um mikilvægi landvarða. Ég hef tekið undir og sett af stað það sem landvarðafélagið kom fram með, vinnu um að skoða sérstaklega stöðu landvarða, menntun þeirra og ýmislegt annað því að þar er verk að vinna. Ég er mjög ánægður með samtök landvarða sem hafa mikla ástríðu fyrir því sem þau eru að gera, eru mjög uppbyggileg í öllum sínum málflutningi og koma fram með góðar hugmyndir um framþróun þannig að við hv. þingmaður deilum ekkert um það. Það er langur vegur frá, við erum mjög sammála og samhljóða í því.

Skýrsla hv. þm. Birgis Þórarinssonar, ef við ætlum taka eitthvað úr henni þá er það það að þar er verk að vinna þegar kemur að minjavernd, ef við ætlum að taka bara eina setningu út úr henni. Málin eru ekki á nógu góðum stað, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég hef lagt áherslu á það í þessum skýrslum sem eru gerðar, og ég bað hv. þingmann um og setti hann til verka ásamt öðru góðu fólki, að þær eigi að vera skýrar og helst stuttar. En þessi skýrsla er ekkert sérstaklega stutt. Af hverju er hún ekkert sérstaklega stutt? Þú bara kemst ekki hjá því þegar þú fjallar um þann málaflokk að skrifa ansi mikið og fara á dýptina þar vegna þess að þar er mikið verk að vinna. Það getur enginn haldið því fram að fyrirkomulagið eins og það er í dag sé gott. Það er bara ekki gott. Það er engin leið að draga það út úr þessari skýrslu og öðrum skýrslum sem við höfum gert að hlutirnir séu það góðir að það megi bara helst ekki hreyfa neitt við þeim. Það er langur vegur frá. Þess vegna erum við m.a. að sameina þetta. Og af því að hv. þingmaður vísar í stjórnarsáttmálann þá var það þannig að forsetaúrskurði var breytt þannig að minjaverndin kom í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og það er útilokað annað en að menn hafi talið að það væri samlegð þar á milli úr því að málaflokkurinn var settur inn í það ráðuneyti. Lögreglan var ekki sett inn í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Nú er ég mjög hlynntur lögreglunni. (Gripið fram í.) Já, hv. þingmaður kallar hér hvort ég vildi fá hana. Faðir minn var lögreglumaður og yfirlögregluþjónn í mjög langan tíma og ég hef mjög sterkar tilfinningar til lögreglunnar en ég hef hins vegar sagt að jafnvel þó að ég vildi gjarnan vinna með lögreglunni þá ætti það ekki heima í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Ég held að við séum alveg sammála því. En ég skil ekki alveg af hverju Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn settu minjaverndina í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið en segja svo: Heyrðu, þetta á ekkert sameiginlegt með málaflokkunum þar. Það er auðvitað ekki þannig. Það er augljóst. Menn settu minjaverndina þar inn af því að þeir töldu samlegð af því. Það hefur verið unnið að því og hvatt til þess í þessari ríkisstjórn að menn fari að sameina stofnanir af augljósum ástæðum og úr því að menn setja minjaverndina inn í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið þá hljóta menn að hafa haft í huga að hún yrði sameinuð þar. Ekki hafa menn hugsað sér að sameina hana með ÍSOR, geri ég ráð fyrir, eða Veðurstofunni. Það eru augljós samlegðaráhrif þarna og ég hvet nú hv. þingmenn til að fara á dýptina í það.

Hv. þingmaður vísaði í þjóðgarðinn á Þingvöllum. Af hverju er Þingvallanefnd enn þá? Það eru alls konar hugmyndir um að það sé ekki skynsamlegt að alþingismenn séu í Þingvallanefnd en í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að það verði óbreytt. Það er nákvæmlega til þess að taka tillit til þessara sjónarmiða sem hv. þingmaður vísaði til, sem eru tengsl Alþingis og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þess vegna eru enn þá þingmenn í Þingvallanefnd í þessu frumvarpi.

Síðan segir hv. þingmaður og fer yfir það að það sé mikilvægt að heimamenn komi að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Já, þess vegna er þetta skrifað sérstaklega út. Ef stofnaður er þjóðgarður er þriggja manna stjórn. Einn er tilnefndur af ráðherra og tveir af sveitarfélögunum. Það er eins skýrt og það getur orðið. Mín upplifun er sú eftir að hafa verið í þessu embætti að það var komið svolítið rof á milli stjórnvalda, þ.e. ríkisvaldsins, og heimamanna þegar kom að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Það stendur í stjórnarsáttmála að það eigi að hafa samráð og samvinnu við heimamenn. Það er mjög mikilvægt að heimamenn geti treyst því að ef það er stofnaður þjóðgarður eða þjóðgarður er stækkaður, hvernig sem menn gera það, þá sértu ekki að færa völdin á skrifstofu í Reykjavík, svo maður tali nú bara íslensku. Þess vegna er það skrifað út með þessum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé útilokað að það gangi vel með þjóðgarða eða friðlýst svæði nema heimamenn séu þar við stjórnvölinn og líði þannig að þeir séu ekki að missa svæðin sem þeim þykir vænt um og þekkja betur en allir aðrir, suður til Reykjavíkur. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn komi með sín sjónarmið og við þurfum að ræða þau og ég vil gjarnan gera það í þessum sal og svo sannarlega í hv. þingnefnd, en ég skil ekki alveg hvernig menn geta komist að annarri niðurstöðu þegar þetta er skrifað út sérstaklega, sem er mjög mikil breyting frá því sem var. Það er skrifað út eins og hægt er og þannig verður það ef málið verður samþykkt óbreytt. Til dæmis verður þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, af því að ég horfi hér á einn hv. þingmann sem þekkir vel til á því svæði og hans fjölskylda, stýrt frá Snæfellsnesi. Það er alveg skýrt ef þetta frumvarp verður að lögum. Ef menn eru fylgjandi því sjónarmiði þá hljóta þeir að fagna þeim frumvarpsdrögum sem hér liggja fyrir .

Ég tel mjög mikilvægt að náttúruverndarsamtök komi að þessum málum en líka útivistarsamtök og sömuleiðis ferðamálasamtök og þess vegna er mikilvægt að þeim sé gert jafn hátt undir höfði. Reynslan okkar, miðað við þá reynslu sem við höfum núna af þjóðgörðunum, er sú að það sé mjög mikilvægt að hafa eins góða sátt við alla þessa aðila og mögulegt er. Þess vegna eru allir við borðið. En það er erfitt að finna rök fyrir því af hverju þeir eigi ekki að vera í sömu stöðu þegar af þessu verður. En í rauninni er þetta alltaf það sama, sama hvernig við skrifum það út og hv. þingmaður þarf auðvitað bara að fara yfir það, á endanum er það þannig að þetta eru sjaldnast atkvæðagreiðslur. Þetta snýst um það að menn þurfa að ræða sig niður á niðurstöðu ef menn ætla að láta hlutina ganga vel. Það er ekki hægt að skrifa það út í lögum. Veldur hver á heldur. Hins vegar er hægt að skrifa út í lögunum, eins og hér er gert í frumvarpinu, að það er útilokað að ganga þannig fram í þjóðgörðum að heimamenn fái ekki að koma að þeim. Aftur: Þriggja manna stjórn, tveir frá sveitarfélögunum, einn frá ráðherra. Það er uppleggið.

Ég hvet hv. þingmann og aðra hv. þingmenn til að skoða þetta. Ég er hér að útskýra sjónarmiðin sem eru hér á bak við. Ég held að ef menn vanda sig þá sé hægt að tala sig niður á og komast að góðri niðurstöðu. Við þurfum að vanda okkur, hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég held að allir séu sammála um, eins og ég nefndi í minni framsögu, mikilvægi þess að sameina stofnanir. Ef menn ætluðu að setja saman allar þær skýrslur sem hafa verið skrifaðar um mikilvægi þess þá efast ég um að Laugardalshöllin myndi duga fyrir allan þann skýrslubunka, það þyrfti örugglega stærra hús í það.

Það er mikilvægt að við hv. þingmenn vinnum okkur að niðurstöðu þannig að við stöndum ekki alltaf frammi fyrir almenningi sem skilur ekkert í því af hverju í ósköpunum við getum ekki komist að niðurstöðu í jafn augljósum málum og þeim þar sem um er að ræða aukna skilvirkni og styrkingu á opinberum stofnunum sem við viljum hafa. Við eigum að geta gert það sem er augljóslega skynsamlegt. Kostar það vinnu? Já. Þarf að ræða þessar niðurstöður? Já. Þarf að skoða alla þætti og taka tillit til athugasemda? Já. Ég er tilbúinn í það og allt mitt fólk og ég hlakka til að eiga samtöl við hv. þingmenn og aðra um þetta mál í þinglegri meðferð.