154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

niðurdæling á vatni í Straumsvík.

[10:34]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á spurningu hv. þingmanns. Mér vitanlega þurfa menn ekki að sækja um leyfi til mín út af þessu sem hefur verið gert sem hv. þingmaður er að vísa í. Í ofanálag er það þannig að þessi tækni sem er að flýta fyrir náttúrulegri umbreytingu, vegna þess að þetta gerist í náttúrunni en það er verið að flýta fyrir því í rauninni með sama markmiði, að fanga CO2, þá er þetta gert þannig og ekki bara hér á Íslandi heldur er þetta fyrirtæki í það minnsta á fimm stöðum í Bandaríkjunum með rannsóknaprófanir vegna þess að menn binda miklar vonir við þessa tækni til þess að fanga CO2. Það sem þessi tækni er að keppa við er þegar fyrirtæki eru að setja niður CO2 í gamlar námur og annað slíkt þar sem þetta verður ekki að steinum eins og gerist í Carbfix heldur er það bara geymt og lokað og læst og menn vona að það komi ekki upp aftur.

En ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að spyrja um það sem mér finnst vera mikilvægt mál, að við þurfum að huga að öryggismálum okkar þegar kemur að orkuöryggi. Ég hef bæði fyrirætlanir og sömuleiðis erum við að sjá uppbyggingu m.a. á flutningsmannvirkjum vegna þess að við þurfum að huga að okkar orkumannvirkjum, ekki bara til að sjá okkur fyrir aukinni orku sem við þurfum á að halda heldur líka þurfum við að sjá til þess að þegar það verða náttúruvár, sem við munum sjá í framtíðinni, það er öruggt, þá séum við eins vel undirbúin og mögulegt er.