154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

niðurdæling á vatni í Straumsvík .

[10:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hverju hv. þingmaður er á móti. Er hann á móti kolefnisföngun? (GIK: Nei.) Stærsta kolefnisföngunarfyrirtæki í heimi er á Akranesi (Gripið fram í.) og þar eru menn að fanga CO2 með því að rækta þörunga, sem eru settir á hafsbotninn, og hafa miklar tekjur af því. Þetta gengur út á að hafa tekjur. Þetta eru fyrirtæki sem ætla að hafa tekjur og eru búin að fá styrki vegna þess að menn hafa trú á því að þetta fyrirkomulag virki, með því að fanga CO2. Er hv. þingmaður að segja að það sé allt saman einhver della? (GIK: … hliðina á þeim. Það er milljón sinnum meira.)

Virðulegi forseti. Þegar menn eru að gera áætlanir og hafa áhyggjur af loftslagsmálum þá er alveg gert ráð fyrir því, og það er enginn að stýra því, að það verða áfram eldgos í heiminum. Ég er svo sem ráðherra eldgosa og biðst bara velvirðingar á því að hafa ekki betri stjórn á því. Ég hef enga stjórn á því. En það tengist þessu máli ekki með neinum hætti.

Ég myndi hvetja hv. þingmann (Forseti hringir.) til að fá umræðu um þetta í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. (Forseti hringir.) Ég er algerlega tilbúinn til að koma með allar upplýsingar hvað þetta varðar því að fyrirspurnin byggir á ákveðnum misskilningi. Það er mikilvægt að fara djúpt í þessi mál. (Forseti hringir.) Þetta snýr líka að því að við þurfum að hafa tekjur af þessu, Íslendingar, ekki bara fyrirtækin. Við þurfum að ræða þetta betur en hér í þessari stuttu spurningu.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)