154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

styrking lagaramma til varðveislu auðlinda.

[10:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi spurning hv. þingmanns, sem ég þakka fyrir, er nú ansi almenn og ég veit ekki hvaða greinar hv. þingmaður er hér að vísa til. Hins vegar bara almennt skiptir afskaplega miklu máli, alveg sama hvaða auðlindir við erum með, ég tala nú ekki um vatnið okkar, að við göngum aldrei þannig fram að einhver hætta stafi af því. Það er auðvitað ekki þannig að við getum látið eins og vatnið okkar sé endalaus auðlind og við þurfum ekki að fara varlega með hana. Það sama á við hvort sem það er heitt eða kalt vatn, það á sama við jarðvarmann og annað slíkt. En varðandi vindorkuna liggur alveg fyrir að við þurfum á vindorku að halda ef við ætlum að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Það liggur alveg fyrir. Við höfum gert mjög lítið í orkumálum í áratugi og það er komið að skuldadögum í því. Þar er staðan mjög alvarleg. Það er m.a. hægt að vísa í orkuspá Orkustofnunar hvað það varðar en orkuspá Landsnets dró það líka mjög fram fyrir ári síðan. Ég er að flytja hér frumvarp, vonandi fæ ég tala fyrir því fyrr en seinna og vonandi strax eftir páska, um reglur í kringum vindorkuna því að við erum bara komin á þann stað, virðulegi forseti, að okkur vantar græna orku. Ég hef bent á það mjög lengi en þingheimur áttaði sig kannski fyrst á því þegar það var lítið vatn í lónum á hálendinu og við þurftum að koma hér inn með fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru enn þá í umfjöllun þingsins. Varðandi trukka yfir Suðurland hef ég tjáð mig um það og mér hugnast það ekki. En hv. þingmaður þarf að vera aðeins nákvæmari í fyrirspurnum sínum til að ég átti mig á því nákvæmlega hvert hv. þingmaður er að fara.